
Um þennan viðburð
Leiðsögn um sýningu | Viltu vera memm?
Listakonurnar Sóley Þorvaldsdóttir ljósmyndari og Tinna Þorvaldds Önnudóttir teiknari munu bjóða upp á leiðsögn í gegnum sýningu sína Viltu vera memm? Í Gerðubergi laugardaginn 31. janúar.
Systurnar Tinna og Sóley ólust upp í Breiðholtinu á 9. og 10. áratugnum. Í þessari sýningu ferðast þær um æskuslóðir og þræða saman minningar og skáldskap með vatnslitum og ljósmyndum. Staðirnir hafa breyst og trén vaxið en augnablikin geymast í minningum og myndaalbúmum. Þær bjóða krakka-sjálfinu út að leika og hversdagurinn verður leikvöllurinn.
Á bak við margar myndanna eru sögur, sem samtvinnaðar mynda óð til æskunnar og óð til Breiðholts, sem systurnar munu deila með gestum.
Sóley Þorvaldsdóttir lauk námi í skapandi ljósmyndun frá Ljósmyndaskólanum árið 2023.
Í verkum hennar mætast tilhneigingin til sögulegrar skrásetningar annars vegar og ljóðrænnar frásagnar hins vegar. Tíminn er algengt umfjöllunarefni og hún sækir innblástur víða að en fyrst og fremst í sitt eigið hversdagslega umhverfi.
Tinna Þorvalds Önnudóttir er myndlistar-, söng- og leikkona.
Sem myndhöfundur vinnur hún aðallega með vatnsliti og penna. Verk hennar einkennast af björtum litum og leikgleði. Í þeim skapar hún oft með persónur og söguþræði þar sem smáatriðin fá sviðsljósið og hið hversdagslega verður mikilfenglegt.
Nánari upplýsingar veitir:
Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri í Gerðubergi
ilmur.dogg.gisladottir@reykjavik.is | 411 6170