María Agnesardóttir og Jóhann Víðir Erlendsson
María Agnesardóttir og Jóhann Víðir Erlendsson

Jól, ó þessi jól bar sigur úr býtum í Jólalagakeppni Borgarbókasafnsins 2025

Nýlega voru úrslit jólalagakeppni Borgarbókasafnsins 2025 tilkynnt og var lagið Jól, ó þessi jól valið sigurlagið. Lagið er eftir Maríu Agnesardóttur og Jóhann Víði Erlendsson. María samdi lagið og sá um flutninginn og Jóhann Víðir próduseraði lagið. Textann sömdu þau saman.

Dómnefndin var einróma um val á jólalagi ársins en í umsögn þeirra segir:

„Lagið Jól, ó þessi jól er vel unnið í alla staði. Lagið á vel heima í útvarpi, enda er auðvelt að dilla sér við grípandi laglínuna. Söngur Maríu er góður og hjartnæmur textinn nær að kjarna þá upplifun sem mörg okkar tengja við jólin. Jól, ó þessi jól, er frábært jólalag sem enginn á að láta fram hjá sér fara og ratar vonandi í útvarp flestra landsmanna um jólin.“  

Hlusta má á lagið á streymisveitunni Spotify.


Jólalagakeppni Borgarbókasafnsins hefur verið haldin árlega frá árinu 2022. Í dómnefnd sátu að þessu sinni þau Anna Magnúsdóttir Eirúnardóttir og Agnes Jónsdóttir, sérfræðingar hjá Borgarbókasafninu, og Ingi Hrafn Hilmarsson, leikari og leikstjóri en hann bar sigur úr býtum í jólalagakeppninni á síðasta ári.
 

Nánari upplýsingar veitir:

Tinna Birna Björnsdóttir, sérfræðingur á Borgarbókasafninu Úlfarsárdal
tinna.birna.bjornsdottir@reykjavik.is | 411 6270