Gleðin í því smáa | Sóttkvíarnar

Taka úr uppþvottavélinni í átjánda sinn í dag, ganga frá öllu í skúffur og skápa til þess að taka það fram aftur fyrir næsta matartíma eftir nokkrar mínútur. Hlusta á meðan á ungan heimalestur um Palla sem var einn í heiminum. Finnast það ekki tilviljun að kennarinn hafi valið þessa bók nú þegar götur eru auðar, veitingastaðir mannlausir og við erum öll Palli. Hlusta næst á heimalestur hinna eldri um plasteyjarnar í úthöfunum. Fyllast vonleysi og sorg. Segja já við beiðni um ofurhetjulegoleik án þess að hafa til þess nokkra burði eða hæfni. Sitja stirð á gólfinu full af vanmætti með Þanos í annarri og Þór þrumuguð í hinni. Fylgjast full aðdáunar með skapandi ungviðinu búa til nýjar sögur, nýjar goðsögur sem kannski munu bjarga heiminum, þar sem Þór er kvenkyns og heimarnir renna saman og allir eru blanda af einhverju - stelpu og strák, kolkrabba og kónguló – og nýjar leiðir verða til.


Ragnhildur Guðmundsdóttir

Næst: Haustlitun og plokkun