Gleðin í því smáa | Haustlitun og plokkun

Ég mála haustið
mínum litum.

Gulnuð laufblöð

berar trjágreinar í
kólnandi vindi

einmana maður
með grátt hár og skegg

flýtir sér leiðar sinnar
í kuldalegri úlpu

himinninn er í felum

skýin þeytast eftir sínum
vindabrautum

móðir með stúlkubarn
í eftirdragi, bleikar úlpur

þeim liggur á að komast
í skólann og hlýjuna

garður með gleymdu leikfangi

ljós innan við glugga
sem er dregið fyrir

svartur köttur skýst á milli bíla
og leitar að hlýrri hönd

til að strjúka burt hrollinn
og fylla hjarta hlýju.

Morgunganga skálds
sem skrásetur lífið

og plokkar orð í ljóð.

Ég mála haustið
mínum litum.


Sigurður Haraldsson

Næst: Ekki heimsendir, en ...