Gleðin í því smáa | Samtalið

Lárus beið að venju við póstkassann úti á vegi í þann mund sem póstbíllinn birtist á hæðinni í fjarska. Í þetta sinn hafði hann beðið í það minnsta í hálftíma. Hann vildi ekki taka áhættuna á því að bíllinn væri fyrr á ferðinni. Honum fannst nefnilega best að taka við póstinum úr hendi póstmannsins. Það var eitthvað persónulegra. Samt voru samskipti þeirra aldrei meiri en nokkur kurteisleg orð og yfirleitt alltaf þau sömu. 

Í þetta sinn voru bréfin þrjú. Hann gekk inn í húsið sem hafði verið heimili hans í yfir fjörutíu ár og fór vandlega í gegnum póstinn. Eitt bréfanna var með handskrifuðu nafni hans og heimilisfangi og á því voru tvö frímerki. Það gladdi hann. Ekki af því að hann safnaði frímerkjum, hann var löngu hættur að safna frímerkjum. Nei, það gladdi hann því einhver hafði skrifað nafnið hans með eigin hendi og þá mögulega hugsað eitthvað til hans í leiðinni. 

Hann hafði alltaf átt erfitt með samskipti. En aldrei meira en þegar Birta kom inn í líf hans einn ágústmánuð fyrir mörgum árum. Þau horfðu saman á stjörnubjartan himininn. Svo var hún farin.

Hann settist í eina stólinn sem ennþá stóð í stofunni, að öðru leyti var stofan tóm. Bréfunum hafði hann þegar hent í ruslið. Nema þessu eina sem hann kom fyrir í brjóstvasanum. Veggirnir gláptu æpandi hvítir á hann úr öllum áttum. Hann kaus að taka ekki eftir því að þeir voru farnir að gulna og málningin að flagna. Hann sat í safni einmanaleikans.

Mínútur liðu. Lárus stóð upp, greip eldspýtustokk af eldhúsborðinu og gekk út í hlöðu. Hann opnaði stóru vængjahurðina og leit örsnöggt yfir safnið sitt. Veggirnir þaktir frímerkjabókum æsku hans, unglingsáranna og fullorðinsáranna. Þarna kenndi ýmissa grasa. Fuglar, blóm, þjóðhöfðingjar, það elsta frá 1902 af Kristjáni IX, atvinnuvegir og samgöngutæki eins og flugvélar, bílar og brýr. Og þarna lá tómur brúsinn. Hann gekk ekki inn. Hann tók eitt skref afturábak og kastaði logandi eldspýtu inn í safn minninganna.

Á morgun átti hann fund við nýja framtíð. Póstbíllinn myndi fara fram hjá þann daginn og alla daga eftir það. Í staðinn kæmi sonur hans að sækja hann, sá sem bjó hinum megin á hnettinum og hann hafði aldrei séð. Það var ekki útilokað að hann væri með grænu augun móður sinnar. Nú var um að gera að vanda sig. Eflaust hefði hann engan áhuga á Kristjáni IX svo hann ætlaði að byrja á því að ræða við hann um lóuna.


Hanna Jónsdóttir

Næst: Heimkoman