Gleðin í því smáa | Heimkoman

Ég hef farið út í göngutúr nær daglega í Kófinu. Ég geng alltaf sama hringinn kringum Rauðavatnið, það er rúmlega klukkustundar gangur, ég kem iðulega endurnærð af göngunni. Leiðin er mjög falleg og fjölbreytileg eftir veðri, birtu og árstíðum og gaman að fylgjast með náttúrunni og sjá hvernig hún breytist. Þetta er aldrei tilbreytingarlaust heldur bæði gefandi og skemmtilegt.

Á dögunum fór ég í göngu sem oftar og klæddi mig vel því vindurinn gnauðaði fyrir utan. Maðurinn minn horfði undrandi á mig og sagði: „Þú ætlar þó ekki að fara í göngutúr í þessu veðri, það spáði suðaustan rigningu með miklu hvassviðri?“ Þvergirðingnum sem ég er fannst það nú í góðu lagi og sagðist búa mig vel og með það hélt ég í hann. Ég var ekki komin langt þegar fóru að renna á mig tvær grímur og ég hugsaði með mér að þetta hefði verið frumhlaup af minni hálfu að álpast út í óveðrið, en áfram hélt ég.

Ég var ekki búin að segja frá því að ferðafélagi minn í þessum ferðum er síminn og þar er ég gjarnan að hlusta á skáldsögur eða ýmislegt annað áhugavert. Það var ekki frábrugðið í þetta sinn, ég var að hlusta á Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness í flutningi Arnars Jónssonar leikara.

Þar var komið lestrinum að Bjartur í Sumarhúsum er að ferðbúast hálfum mánuði eftir veturnætur til að leita að Gullbrá, gimbrinni sem hvarf sporlaust, en hann alls óvitandi um að búið var að éta hana og grafa að hluta. Þar sem hann er á heiðum öræfanna blés vindurinn glatt við Rauðavatn. Ég hugsaði með mér að það væri gott að ég hafði lambhúshettuna sem skorðaði gleraugun því annars hefðu þau fokið af mér. Þegar ég var komin norðanmegin vatnsins var orðið svo bálhvasst að ég stóð nánast lárétt móti vindinum og sneri mér hvað eftir annað við því ég hafði vindinn í fangið, þá var Bjartur kominn á hrokbullandi sund á hreindýrskálfi yfir Jökulsá á Heiði. Áfram hélt ég í beljandi rigningunni með storminn í fangið. Bjartur gróf sig í fönn austan megin ár stokkfreðinn og blautur og fór með rímnakveðskap, rímur kunni ég engar og áfram þrælaðist ég gegn landsynningnum.

Heim komst ég eins og Bjartur enda ferðalögum okkar varla saman að jafna. Við hans heimkomu beið látin eiginkona og nýfætt stúlkubarn undir lúsugri tík. Við heimkomu mína var ég eins og hundur af sundi dregin. Mér mætti hlýtt og notalegt húsnæði og áhyggjufullur eiginmaður en bráðlifandi.

Það fyrsta sem Bjartur sagði við heimkomuna eftir að hafa skriðið upp á bæinn og rótað snjónum frá glugganum var: „Rósa, reyndu að skjóta til mín skóflublaði út um bæjardyrnar.“ Ég sagði: „Æ elskan, mikið er ég fegin að vera komin heim.“


Ingibjörg K. Ingólfsdóttir

Næst: Elstur