Gleðin í því smáa | Augasteinn

Gamla konan klæddi sig í kápuna, tók tauminn af snaganum eins og venjulega og sagði: Jæja, við skulum fara út í göngutúr, elskan mín.

Bella var augasteinninn hennar. Þær stigu út en stöldruðu aðeins við undir trjánum sem grúfðu sig yfir gamla timburhúsið hennar Veru, svona augnablik, rétt til að finna styrkinn í vindinum og svalann í deginum. Bella teygði trýnið út í loftið og leit svo hvetjandi á gömlu konuna eins og alltaf áður en þær lögðu af stað í gönguferð.

Vera fylgdist með tíkinni þefa af þúfum, merkja sér svæði og gramsa í haustlaufinu á skógarstígnum þar sem þær höfðu gengið saman síðastliðin tíu ár, allt frá því hún kom inn í líf hennar. Alltaf sama hringinn á heiðinni þar sem lágvaxinn birkiskógurinn óx. Bella var henni allt. Hún var sú eina.

Gamla konan nam staðar, teygði höfuðið móti haustsólinni í vestri og andaði djúpt að sér fersku loftinu með luktum augum.

Bella var vön að standa eins og stytta, horfa forvitnum augum á fóstru sína og bíða þess hvað hún gerði næst eins og húsbóndahollir hundar gera. Á milli þeirra var sterk taug, leyniþráður, líkt og þær læsu hugsanir hvor annarrar; ein brosvipra í átt að eldhúsinu og þá stökk hún af stað; augngota þangað sem hún var vön að geyma harðfiskinn og Bella var þotin. Og aldrei neinar skammir.

Á göngunni hugleiddi Vera lífið sem virtist alltaf æða fram úr henni í þúsund gulum litum. Nýfallin laufin liðu með hægum blænum framúr þeim á göngunni í sólarátt í fögru septemberloftinu.

Hennar tími færi brátt að koma til að kveðja, hugsaði Vera með sér. Lífið er stutt augnablik í eilífðinni. Í stutta stund hér á jörðu njótum við hvors annars, og lífsins saman, en sú næsta er kveðjustund. Tíminn, já tíminn, líður svo hratt. En hérna á heiðinni staðnæmist hann í augnablik, í fegurðinni og þránni eftir minningum liðinna stunda. Dauðinn er fallegur á litinn, hugsaði Vera og horfði fjarlægum augum á eftir Bellu sinni vappa um innan minninganna og nýfallin laufin. Lífið er árstíðir.

- Áfram gakk, sagði Vera hljóðlátlega og saman komu þær að staðnum sem Bella var vön að stoppa við og svala þorstanum úr holunni í miðju steinsins. - Það er regnvatn, sagði Vera þar sem hún fylgdist með henni lepja döggina upp. Augasteinninn minn, hugsaði hún með sér eða var þetta tilfinning sprottin úr hjarta hennar, talar hjartað svona, velti hún fyrir sér og gekk áfram stíginn milli trjánna. Vera staðnæmdist við þúfuna með lífvana tauminn í hendinni og leit niður á spýtuna sem á var grafið: Hérna hvílir beinin mín ástkæra Bella.


Axel Jón Ellenarson

Næst: Arfur