Kynningarmynd Gerðuberg kallar

Um þennan viðburð

Tími
08:00
Verð
Frítt
Fræðsla

Gerðuberg kallar eftir skapandi einstaklingum

Mánudagur 1. febrúar 2021 - Mánudagur 15. mars 2021

Click here for English.

Borgarbókasafnið býður listafólki að vinna í menningarhúsinu Gerðubergi að eigin verkefni sem tengist hugmyndum um að tilheyra og öruggum rýmum.
Verkefnið er tilraun í þróun bókasafnsins sem samfélagsrými og þátttökugátt. Við sækjumst eftir skapandi samstarfi til að auðga menningardagskrána og kynnast fjölbreyttari nálgunum, sem styðja við framtíðarsýn bókasafnsins sem almenningsrýmis allra.

SAMSTARF
Gerðuberg býður upp á vinnuaðstöðu fyrir listafólk til rannsókna og vinnu í fjórar vikur. Verkefnið er hluti af starfsumhverfi bókasafnsins og gert er ráð fyrir reglulegri viðveru í Gerðubergi.
Samstarfið felur í sér vinnustofu með starfsfólki bókasafnsins, þar sem listamaður kynnir verkefnavinnuna. Á meðan á samstarfinu stendur kynnir listamaðurinn þróun verk síns á stafrænum miðlum bókasafnsins. Við lok tímabilsins hefur listamaðurinn ákveðið vettvang og tímasetningu til að kynna verk sitt.

GREIÐSLUR
Bókasafnið greiðir völdum listamanni 200.000 kr. Greitt er sérstaklega fyrir eftirfarandi verkefni:
• Vinnustofa með starfsfólki bókasafnsins
• Framlag til stafrænna miðla bókasafnsins
• Kynning á verki
Bókasafnið kemur til móts við efniskostnað að hámarki 50.000 kr.
Listamanni er frjálst að sækjast eftir öðrum styrkjum.

TÍMARAMMI
Tvær stöður eru í boði, þar sem einum listamanni er boðið vinnurými í fjórar vikur:
• 1.-31. október 2021
• 3.-31. janúar 2022

UMSÓKN
Umsækjendur eru beðnir um umsókn með eftirfarandi upplýsingum:
• Verkefnalýsingu og hvernig verkefnið tengist hugmyndum um að tilheyra og öruggum rýmum
• Dæmi um fyrri verk, ef við á
• Aðrar upplýsingar, ef þörf er á
Umsóknir skulu sendar rafrænt til Martynu Daniel, Martyna.Karolina.Daniel@reykjavik.is, fyrir 15. mars 2021. Vinsamlegast takið fram hvaða tímabili óskað er eftir.

VAL Á VERKEFNI
Valnefnd metur allar umsóknir með hliðsjón af eftirfarandi atriðum:
• Markmiðum verkefnis og hvort þau séu raunhæf
• Ávinningi fyrir þróun bókasafnsins sem samfélagsrými og þátttökugátt

HUGSAÐU ÞÉR STAÐ...
Þar sem allir eru velkomnir og það kostar ekkert inn. Stað þar sem þú getur verið – eins og þú ert – og leitað athvarfs frá amstri dagsins. Í samtali við aðra, sem þú hefðir annars ekki hitt, fæðast hugmyndir og þú uppgötvar eitthvað nýtt. Á þessum stað er þér meira en velkomið að deila því sem þú hefur – hugmyndum, reynslu og hæfni. Þegar þú gengur út, finnst þér þú tilheyra einhverju stærra, vita og skilja aðeins meira. Þú býrð að upplifun á rými sem endurspeglar samfélagið okkar.
Bókasafnið getur verið þessi staður; samfélagsrými og þátttökugátt þar sem við deilum sögum, menningu og upplifun.

FREKARI UPPLÝSINGAR
Hafið samband við Martynu Daniel, sérfræðing í fjölmenningarmálum hjá Borgarbókasafninu, Martyna.Karolina.Daniel@reykjavik.is

Nánari upplýsingar um Gerðuberg kallar hér
Gerðuberg kallar - Facebook