Um þennan viðburð
Fræðakaffi | „Svínslegar krossgátur“
Ævar Örn Jósepsson fréttamaður og rithöfundur er þekktur fyrir vísbendingakrossgátur sínar, sem fyrir mörgum setja punktinn yfir i-ið á sunnudagsmorgunkaffinu. Krossgátur hans birtust lengi vel vikulega í fjölmiðli sem ekki lengur kemur út, en nú er hægt að nálgast þær HÉR. Gáturnar eru vinsælar og dæmi eru um starfandi krossgátuklúbba, þar sem fólk leysir gáturnar í sameiningu.
Sjálfur lýsir hann gátum sínum sem „svínslega erfiðum“, hann gefur oft afar langsóttar og snúnar vísbendingar og stundum er lausnin falin í gátunni sjálfri. Hvernig er þetta hægt, spyrja margir sig, svo eru aðrir sem hafa lært að fylgja þankagangi Ævars og þekkja hvernig hann leikur sér með orð og slítur þau í sundur á óvenjulegum stöðum.
Dæmi um vísbendingar Ævars: „Úr ati og fjöri verður ólifnaður“, „Blæblíð og farðafríð“, „Rek gamlan rokkara í gegn“.
Ævar Örn spjallar um krossgátugerð sína og reynir að útskýra hvernig hann hugsar þegar hann sest við smíðarnar.
Nánari upplýsingar veitir:
Sigríður Stephensen, sérfræðingur
sigridur.steinunn.stephensen@reykjavik.is | 411 6230