Um þennan viðburð

Tími
20:00 - 21:30
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Liðnir viðburðir

Bókakaffi | Ástir

Miðvikudagur 26. febrúar 2020

Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg;
en anda sem unnast
fær aldregi
eilífð að skilið.

Svo hljóðar síðasta erindi í einu frægasta ástarljóði Íslendinga „Ferðalok“ eftir Jónas Hallgrímsson. Ástin ratar oftar en ekki á síður skáldskaparins og virðast svokallaðar ástarsögur eiga fastan sess í hjörtum ákveðinna lesenda. En hvað gerir ástarsögu að ástarsögu og hver er munurinn á ástarsögu og sögu um ást? Í næsta Bókakaffi munu þær Þóra Hjörleifsdóttir, rithöfundur, og Ingunn Snædal, ljóðskáld og þýðandi, ræða við Guðrúnu Baldvinsdóttur um ástir í bókmenntum í víðum skilningi, og hver veit nema spjallið leiði þær í nýjan sannleik um ást og ástarsögur.

Bókakaffið er að þessu sinni upphitun fyrir Sparibollann, verðlaunahátíð um fegurstu ástarjátninguna sem Bókabæirnir halda í Trygggvaskála á Selfossi, fimmtudaginn 27. febrúar. Nánar um hátíðina og málþingið hér: https://www.facebook.com/sparibollinn/
Á Facebooksíðu Sparibollann er einnig hægt að tilnefna fegurstu ástarjátningu ársins 2019!

Rithöfundurinn Þóra Hjörleifsdóttir gaf út sína fyrstu skáldsögu Kviku í byrjun árs 2019 og vakti mikla athygli fyrir beinskeytta lýsingu á eitraðri ást og markaleysi í sambandi ungs fólks. Þóra er hluti af ljóðakollektívinu Svikaskáld sem gefið hefur út þrjár ljóðabækur, Ég er ekki að rétta upp hönd, Ég er fagnaðarsöngur og Nú sker ég netin mín.

Ingunn Snædal er ljóðskáld og þýðandi en hún gaf út fyrstu ljóðabók sína, Á heitu malbiki, árið 1995 og hefur verið ötul á ritvellinum síðan og kom út veglegt ljóðasafn hennar árið 2015. Undanfarin ár hefur hún einnig fengist við þýðingar og hefur t.a.m. þýtt hinar geysivinsælu bækur Jenny Colgan, höfundar Litla bakaríið við strandgötu sem og Hnitmiðuð kínversk-ensk orðabók fyrir elskendur eftir Xiaolu Guo.

Bókakaffi í Gerðubergi er hluti svokallaðra Kaffistunda sem boðið er upp á reglulega í menningarhúsum Borgarbókasafnsins. Þar koma bókaunnendur, lestrarhestar, rithöfundar og skáld saman og deila ást sinni á bókmenntum. Við hefjum árið á glæpum, ástum og örlögum. Fylgist með á viðburðasíðunni okkar eða á Facebook.

Frekari upplýsingar veitir: 

Guðrún Baldvinsdóttir
gudrun.baldvinsdottir@reykjavik.is