Rithöfundarnir Lilja Sigurðardóttir og Ármann Jakobsson
Lilja Sigurðardóttir og Ármann Jakobsson eru gestir Bókakaffis

Um þennan viðburð

Tími
20:00 - 22:00
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Liðnir viðburðir

Bókakaffi | Glæpir

Miðvikudagur 29. janúar 2020

Fólskuverk og illvirkjar hafa verið rithöfundum jafnt sem lesendum hugleiknir síðan fyrstu nútímalegu glæpasögurnar birtust á prenti á fyrri hluta 19. aldar, en af hverju er þessi bókmenntagrein svona vinsæl og hvernig hefur hún þróast og breyst á síðustu árum og áratugum? Í bókakaffi Borgarbókasafnsins að þessu sinni hittast glæpasagnahöfundarnir Lilja Sigurðardóttir og Ármann Jakobsson og spjalla við Maríönnu Clöru Lúthersdóttur um nýútkomnar bækur sínar og þessa vinsælu bókmenntagrein. Bókakaffin eru vettvangur fyrir óformlegar, fjörlegar og fræðandi umræður um bókmenntir og listir þar sem áhorfendur geta tekið virkan þátt í spjallinu.

Lilja Sigurðardóttir hefur fyrir löngu stimplað sig inn í þjóðarsálina sem einn af okkar kunnustu glæpasagnahöfundum og bíða blóðþyrstir krimmaaðdáendur bóka hennar með óþreyju. Fyrsta bók Lilju var glæpasagan Spor sem kom út fyrir rúmum ellefu árum og hlaut góðar viðtökur. Árið 2015 kom svo Gildran, fyrsta sagan í þríleik og á næstu tveimur árum fylgdu Netið og Búrið. Þríleikurinn hefur slegið í gegn og verið þýddur á fjölmörg tungumál auk þess sem Gildran var tilfnefnd til bresku glæpasagnaverðlaunanna Gullrýtingsins. Nú fyrir jólin kom svo út spennusagan Helköld sól.

Ármann Jakobsson er kunnur fræðimaður og rithöfundur sem hefur komið víða við á ferlinum. Fyrsta skáldsaga hans var Vonarstræti sem kom út árið 2008 og var söguleg skáldsaga sem gerist í Reykjavík um aldamótin 1900. Síðan þá hefur Ármann svo sannarlega ekki setið auðum höndum heldur bætt við fleiri sögulegum skáldsögum, barnabókum, örsögum og síðast en ekki síst glæpasögum en Útlagamorðin komu út árið 2018 og nú fyrir jólin kom svo óbeint framhald hennar, Urðarköttur.

Bókakaffi í Gerðubergi er hluti svokallaðra Kaffistunda sem boðið er upp á reglulega í menningarhúsum Borgarbókasafnsins. Þar koma bókaunnendur, lestrarhestar, rithöfundar og skáld saman og deila ást sinni á bókmenntum. Fylgist með á viðburðasíðunni okkar eða á Facebook.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Maríanna Clara Lúthersdóttir, verkefnastjóri bókmennta

marianna.clara.luthersdottir@reykjavik.is