Bókakaffi með Sjón
Bókakaffi með Sjón

Um þennan viðburð

Tími
20:00 - 22:00
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Kaffistundir

Bókakaffi | Mánasteinn og sögulega skáldsagan

Miðvikudagur 28. nóvember 2018

Bókaspjall við Sjón um Mánastein, Söguna og skáldskapinn

Aldarafmæli fullveldisins hefur víða verið fagnað á árinu, enda var árið 1918 áhugavert fyrir margra og misánægjulegra hluta sakir. Lista- og fræðafólk hefur gert tilraunir til að sviðsetja andrúmsloftið frostaveturinn mikla, en fáum tekist jafn vel til og rithöfundinum Sjón í skáldsögunni Mánasteinn – Drengurinn sem aldrei var til frá árinu 2013.

Mánasteinn segir frá drengnum Mána Steini sem hefur unun af kvikmyndum og lifir sig inn í hverja einustu mynd sem sýnd er á hvíta tjaldinu. Þegar spænska veikin herjar á bæjarbúa í Reykjavík blandast heimar Mána Steins saman, ímyndun verður veruleiki og bilið milli lífs og dauða verður ógreinanlegt. Sjón hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna árið 2013.

Kristján Guðjónsson menningarblaðamaður mun spjalla við Sjón á bókakaffi í nóvember. Þeir spjalla um Mánastein, um söguna og skáldskapinn, um bíó, býsnir og skugga-baldra. Hvernig er að skrifa sig inn í frostavetur?

Bókakaffi í Gerðubergi er hluti kaffikvölda í Gerðubergi og haldið mánaðarlega yfir vetrarmánuðina, fjórða miðvikudagskvöld í mánuði. Það er vinsæll liður í viðburðadagskrá Borgarbókasafnsins. Þetta misserið verður litið um öxl: Við eltum Tinna til Sovétríkjanna og víðar; eigum endurfundi við hina dáðu Kapítólu; og hverfum loks aftur til 1918 í fylgd Sjón og Mána Steins.

Frekari upplýsingar: 

Guðrún Baldvinsdóttir
gudrun.baldvinsdottir@reykjavik.is
S. 411-6182 / 661-6178

Bækur og annað efni