Gunnar Hersveinn og Elsa Björg

Um þennan viðburð

Tími
20:00 - 22:00
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Fræðsla
Kaffistundir
Spjall og umræður

Heimspekikaffi | Sjálfið á tímum Alnetsins

Miðvikudagur 18. september 2019

Setningin „Þekktu sjálfan þig“ er elsta fullyrðing forngrískrar heimspeki og verður sennilega aldrei úrelt. Sókrates sagði að órannsakað líf væri einskis virði – en spyrja má hvaðan kemur sjálfsþekkingin? Hefur innri rödd eitthvað að segja í dag? Höfum við nógu sterk bein til þess að standast áreitið sem fylgir sítengingu við Alnetið?

Getur verið að hraði samtímans kaffæri gagnrýna hugsun sem þarfnast bæði einveru og uppbyggilegs samtals? Gunnar Hersveinn og Elsa Björg Magnúsdóttir heimspekingar munu, í Heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 18. september kl. 20, pæla í sjálfsmyndum og heimsmyndum á tímum Alnetsins. 

Heimspekikaffið í Gerðubergi hefur verið vinsælt undanfarin misseri, en þar er fjallað á mannamáli um hvers konar líferni er eftirsóknarvert. Gestir taka virkan þátt í umræðum og hafa margir farið út með gott veganesti til að ræða frekar.

Elsa Björg Magnúsdóttir er með M.A. gráðu í siðfræði frá King's College London. Elsa hefur setið í stjórn Félags heimspekikennara og Félags áhugamanna um heimspeki. Hún hefur lagt sitt lóð á vogarskál heimspekilegrar umræðu í þjóðfélaginu með viðburðum þar sem ólíkir hópar eru leiddir í samtal um brýn málefni. Hún er formaður Félags áhugamanna um heimspeki.

Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur hefur umsjón með dagskránni og leiðir gesti í lifandi umræðu um málefnin á aðgengilegan hátt. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir skrif sín um samfélagsmál og gildin í lífinu. Hann hefur skrifað m.a. skrifað bækurnar Gæfuspor, Orðspor, Þjóðgildin og síðast Hugskot – skamm, fram- og víðsýni ásamt Friðbjörgu Ingimarsdóttur.

Verið öll velkomin, frítt inn meðan húsrúm leyfir! 

Frekari upplýsingar veitir: 

Guðrún Baldvinsdóttir
gudrun.baldvinsdottir@reykjavik.is