
Um þennan viðburð
Lestrarhátíð Borgarbókasafnsins
Lestrarhátíð í Grófinni
Lestrarhátíðin er nýtt verkefni á Borgarbókasafninu sem miðar að því að skapa fjölbreytta og skapandi dagskrá í kringum lestur, fyrir lesendur á öllum aldri. Hátíðin verður tvískipt; með áherslu á fullorðna lesendur að vori og börn og ungmenni að hausti.
Markmið Lestrarhátíðarinnar er að vekja áhuga á lestri, kynna fjölbreytt lesefni, skapa hugguleg rými til lesturs inni á safninu og bjóða upp á viðburði eins og opna bókaklúbba, upplestur ljóða, bókmenntagetraunir og margt fleira. Með hátíðinni er lögð sérstök áhersla á að auka sýnileika lesturs og skapa vettvang fyrir samveru í kringum lestur, þar sem fólk á ólíkum aldri og með mismunandi bakgrunn getur komið saman.
Hátíðin er haldin á Borgarbókasafninu Grófinni - sannkölluð lestrarveisla á öllum hæðum.
Dagskrá:
11:00 : Torgið, 1. hæð
Í pokahorni ljóðskáldsins - fyrri hluti: Nokkur valinkunn ljóðskáld lesa upp úr ljóðabókunum sem mótuðu þau
12:00 : 5. hæðin
Félag Sameinuðu þjóðanna býður í Opinn bókaklúbb - Litla Land eftir Gaël Faye
13:00: Torgið, 1. hæð
Bókmenntagetraun
14:00: 5. hæðin
Auður Ava býður í Opinn bókaklúbb - Fuglarnir eftir Tarjei Vesaas
15:00: Torgið
Í pokahorni ljóðskáldsins - seinni hluti: Nokkur valinkunn ljóðskáld lesa upp úr ljóðabókunum sem mótuðu þau
16:00: 5. hæðin
Kvenréttindafélagið býður í Opinn bókaklúbb - Stúlka, kona, annað eftir Bernandine Evaristo
17:00: ÚT!
Ef veður leyfir í lok dags verður þeim gestum sem enn eru sólgnir í meira, húrrað út í bókmenntagöngu. Þar verður lesið upp úr nokkrum vel völdum textum í tilefni Mæðradagsins.
Stöðvar:
Auk dagskrárliða verða stöðvar víðsvegar um safnið þar sem njóta má lesturs með mismunandi hætti.
• Lesfriður verður á annarri hæð, þar verður boðið upp á te og kaffi og næði til lesturs í samvistum við aðra.
• Á Torginu á fyrstu hæð verður kynning á nýju verkefni Borgarbókasafnsins, Bókaklúbbur í poka.
• Í Kompunni á 5. hæð verða Lestrarteinarnir þar sem gestum er gefinn kostur á að lesa inn sín uppáhaldstextabrot inn í hljóðrás sem verður flutt við gott tilefni á Borgarbókasafninu eða miðlum safnsins.
• Eins verður boðið upp á föndursmiðju fyrir börn og fullorðna á 2. hæð.