glass jar lantern

Fjölmenningarleg gæðastund

Kakó Lingua önn er hafin! Fyrsti viðburðurinn fór fram sunnudaginn 25. febrúar þegar við áttum saman notalegt síðdegi þar sem fjölmörg tungumál voru töluð á meðan gamlar glerkrukkur voru skreyttar og breytt í falleg ljósker til að taka með heim.

Mörg mættu til að njóta stundarinnar saman og meðal tungumála sem töluð voru má nefna spænsku, ungversku, arabísku, kínversku, íslensku og dönsku. Hinir fullorðnu skemmtu sér ekki síður konunglega yfir föndrinum, með eða án barna, á meðan spjallað var um heima og geima. 

Fallegar ljósluktir

Fallega skreyttar krukkur

Kakó Lingua viðburðirnir eru fjölmenningarlegar gæðastundir, þvert á kynslóðir, þar sem skilningur milli barna og fullorðinna er efldur. Með því að nota sjónræna samsköpun og mismunandi tungumál í vinalegu og hvetjandi umhverfi nýtum við færni hvers annars og tengjumst með því að notast við samskipti umfram tungumálið. 

Viðburðirnir fara fram á Borgarbókasafni Reykjavíkur Kringlunni, allur efniviður er á staðnum og þátttaka er ókeypis.

Síðast en ekki síst er alltaf heitt kakó á boðstólum og spilunarlisti rúllar í bakgrunni með tónlist á hinum ýmsu tungumálum. 

Komdu og vertu með næst! 
 

Nánari upplýsingar veitir: 
Martyna Karolina Daniel | sérfræðingur fjölmenningarmála 
martyna.karolina.daniel@reykjavik.is