Sunna Ástþórsdóttir

Ný menningarstefna Reykjavíkur | Opið samtal

Á Torginu var rætt opinskrátt um drög að nýrri menningarstefnu Reykjavíkurborgar. Sunna Ástþórsdóttir, safnstjóri og formaður stjórnar Nýlistasafns Íslands, og Nanna Gunnars,  listrænn stjórnandi hátíðarinnar Reykjavík Fringe Festival, litu við og spáðu og spekúleruðu með okkur á bókasafninu í Grófinni.

Hugtakanotkun stefnunnar og mikilvægi þess að hafa sveigjanleika í ramma menningarstarfs voru rædd. Hugmynd um „ævilanga inngildingu“ getur gefið til kynna skuldbindingu sem nær umfram einstök verkefni. Inngilding er þýðing á enska hugtakinu inclusion. Eins og kemur fram í drögunum þá felur inngilding í sér að fólki sem annars gæti verið útilokað eða jaðarsett frá tækifærum eða úrræðum sé tryggður aðgangur. Til þess að ná því fram er vettvangur gagnrýnna skoðanaskipta ómissandi sem og vilji til að opna fyrir innri breytingar.

Þarfir og aðstæður borgarbúa breytast stöðugt, upplýsingaóreiða er eitt af einkennum samtímans. Sunna nefndi að eitt lykilatriði væri að skapa stofnunum sveigjanlegan ramma sem gerir þeim kleift að bregðast við ólíkum þörfum samfélagsins og að þeim sem hafa tilkall til samtalsins sé tryggður möguleiki á aðkomu og þátttöku. Hvort „ævilöng inngilding“ nái utan um hugmyndina er óljóst; er átt við langa menningarævi borginnar eða alla ævi hvers borgarbúa?

Nanna Gunnars frá Reykjavík Fringe Festival

Nanna Gunnars ræddi áskoranir í lífi verkefnastjóra sem endurskapar borgarrými með sviðslist jaðarsins, eins og hún gerir með hátíðinni Reykjavík Fringe Festival. Í stefnudrögum er að finna markmið um að stuðla að skapandi hugsun með því að skapa rými fyrir hið óvænta og ótamda í þéttbýli. Nönnu var afar hugleikið hvernig hægt væri að tryggja gagnsæi og aðgengi að fjármagni. Hún nefndi mörg atriði sem koma fram í markmiðum um listir sem atvinnugrein í borginni. Kannski snýst spurning ekki um hvort borgin eigi að tryggja frelsi til listrænnar tjáningar, auka sýnileika eða styðja við listarými og unga, jaðarsetta listamenn – heldur hvernig hægt sé að tryggja langtíma rekstrargrundvöll! Við býðum spennt eftir aðgerðaráætlun borgarinnar, sem fylgja mun stefnunni. 

Enn er hægt að senda inn umsagnir á Betri Reykjavík, en opna samráðsferlinu lýkur föstudaginn 20. ágúst.

Við þökkum kærlega fyrir samtalið og höldum áfram að opna rými safnsins fyrir gagnrýnum og skapandi röddum.

Hópur ræðir menningarstefnu

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 31. janúar, 2023 16:14