Hópur ræðir saman um lýðræðisstefnu

Lýðræði þarf sýnileika, aðgengi og breytileika | Opið samtal

Hvaða eiginleikum þarf torg að búa yfir til að teljast lýðræðisvettvangur? Af hverju sækjumst við eftir að dvelja á sumum stöðum umfram aðra? Hvers vegna hafa ákveðnir staðir merkingu í lífi okkar en aðrir ekki? Hvenær fer staður frá því að vera merkingalaust rými yfir í stað sem skiptir okkur persónulega máli?

Í umræðunum sem fóru fram á Torginu 19. ágúst, um drög að nýrri lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar, kom fram að það að geta haft áhrif á umhverfi okkar er lykilatriði ef okkur á að finnst við eiga heima á ákveðnum stað – finnast við tilheyra.

Hvað er öruggt rými?

Páll Líndal umhverfissálfræðingur, sem sinnir bæði rannsóknum og ráðgjöf á sínu sviði, settist hjá okkur á Torginu. „Þetta er bara eins og heimili okkar og það að finnast maður eiga heima einhvers staðar, það er nátengt frelsinu til að breyta og hanna rýmið eins og við viljum hafa það.“ Páll segir gildi þess að hafa áhrif á umhverfi sitt og skapa borgurum tækifæri til að breyta umhverfi sínu eftir eigin þörfum ekki aðeins mikilvægt frá sjónarhorni lýðræðis heldur einnig lýðheilsu. „Við upplifum okkur öruggari og okkur líður betur ef við sjáum að við getum haft áhrif á umhverfi okkar.“

Roxana Cziker

Roxana Elena Cziker, verkefnastýra rannsókna og nýsköpunar verkefna hjá Reykjavíkurborg sem hefur meðal annars stýrt sérstökum lýðræðisvinnustofum sem rýna í traust á stjórnsýslunni á tímum faraldra (Covid 19) og eru hluti af Horizon 2020 evrópuverkefninu Populism and Civic Engagement (PaCE), sat einnig með okkur á Torginu. Hún sagði að í lýðræðilegu samhengi sé engu að síður nauðsyn að gera greinarmun á þörfum og vilja. „Hverjar eru þarfir borgarbúa og hverju vilja þeir breyta? Fara grunnþarfir okkar sem einstaklingar og lýðræðissamfélag alltaf saman?“ Roxana lagði áherslu á að gera stafrænan vettvang aðgengilegan, notendavænan og tengja við álitsgjafa. Henni var ofarlega í huga að tryggja verði aðgengi að áreiðanlegum upplýsingum í lýðræðissamfélagi, þetta er atriði sem kemur fram á vinnustofum í PaCE verkefninu í nokkrum Evrópuríkjum – bæði er þörf á aðgengi að upplýsingum og faglegri umræðu til að tryggja stöðu lýðræðis. Annað sem hún nefndi og hefur komið fram á lýðræðis-vinnustofum er mikilvægi þess að bjóða upp á fræðslu í gagnrýnni hugsun. 

Hópurinn ræddi einnig hvort að stafrænt samráð tæki nægilega til greina vægi aðgengs að grunnréttindum og þjónustu eða hvort slíkar hugmyndir gætu fallið í skugga vinsælli og skemmtilegir hugmynda sem tækju ekki tillit til aðstöðumunar ólíkra samfélagshópa. Það er mikil áhersla á að gera Reykjavík að skemmtilegri borg, en vægi þarfa og ítarlegri þarfagreiningar eru nauðsynlegar og þurfa alls ekki a vera flóknar.

Lýðræðisvettvangur í raunheimum

Á Torginu ræddum við um sérkenni hvers lýðræðisvettvangs, eins og borgaratorga eða annarra samfélagsrýma þar sem við getum hafði samtal, eins og við þekkjum þau í minni samfélögum úti á landi í formi t.d. bensínstöðva, sjoppa eða umbreyttra þvottaplana. Á Betri Reykjavík býðst borgarbúum að koma á framfæri sinni skoðun á drögum að lýðræðisstefnu borgarinnar, en þátttakan er dræm. Stafrænt samráð er mikilvægt en það er vissulega þörf á að brúa bilið yfir í raunheima. Niðurstaðan var að vettvangurinn þarf að vera sýnilegur, aðgengilegur og að bjóða upp á breytingar. Hann er aldrei fullmótaður og við verðum að geta lagað hann að eigin þörfum. Frábært dæmi um slíka þróun er þvottaplanið á Djúpavogi.

Bílastæði á Djúpavík Samfélagsrými á Djúpavík

Í hverju samfélagi þarf að vera til staður sem tileinkaður er samfélagsþátttöku. Sá staður þarf að hafa einhverja merkingu í lífi samfélagsþegnanna. Til að skapa þessa tengingu þurfum við að gera hann að okkar og það tekur tíma. Gæti bókasafnið verið staðurinn þar sem lýðræðisvitund vaknar og borgaraleg þátttaka finnur sér stað?

Hólmfríður Bjarnardóttir

Tengivirkið – opin rými

Eitt dæmi um slíkt ferli er verkefnið Tengivirkið. Hólmfríður María Bjarnardóttir, verkefnastjóri umræðufunda Tengivirkisins á bókasafninu, leit við á Torginu eftir að hafa farið með hópi þátttakenda á Kjarvalsstaði þar sem þau könnuðu hvernig merking verka Kjarvals breytist í augum samtímalistamanna. Markmið verkefnisins er að auðvelda ungu fólki, sem hefur annað móðurmál en íslensku (AM), aðlögun að samfélaginu og auðvelda tengslamyndun við nærumhverfið og hvert annað. Hópurinn hittist vikulega í umræðuhópum og gerir eitthvað saman. „Við höfum til dæmis unnið að ferilskrárgerð, lært smá íslensku og farið í bíó en á döfinni í haust er meðal annars að fara á söfn, spila borðspil, búa til minnisbækur og fá heimsóknir frá áhugaverðum aðilum,“ útskýrir Hólmfríður.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis en umræðuhóparnir eru einungis einn liður í stærra verkefni sem Þjónustumiðstöðin leiðir. Þetta nýsköpunarverkefni er hluti af þróun bókasafnsins sem opins rýmis, þar sem við sækjumst eftir að notendur komi að dagskrárgerð og geri rýmið að sínu eigin.

Þátttakendur í Tengivirkinu

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 31. janúar, 2023 16:13