Janosch skapar Stofuna | A Public Living Room
Janosch Bela Kratz er fyrsti notandinn til að skapa sína eigin Stofu á bókasafninu. Hann tekur þátt í verkefninu Stofan | A Public Living Room. Markmið verkefnisins er að skapa ólíkar útgáfur af samfélagsrýmum á bókasafninu, stað þar sem hægt er að hefja samtal og tengjast öðrum. Janosch hefur valið sér stað og mun hefja fyrsta samtalið í rýminu 28. September í Grófinni. Við spurðum hann nokkurra spurninga um hönnun hans.
Hvaða stað valdir þú fyrir þína Stofu?
Ég valdi ljóðahornið á annarri hæð í Grófinni. Þessi staður varð fyrir valinu því hann er fjarri beinni dagsbirtu, aðeins falinn, öruggur staður sem veitir vernd. Þú ert ekki berskjaldaður eða alltaf sýnilegur öðrum notendum á bókasafninu. Góðar samræður skapast oft á földum stöðum.
Hverju viltu koma fyrir í Stofunni?
Mig langar að búa til herbergi, eða meira skissu af því, veggina teikna ég með með textíl. Ég bæti svo við koddum og teppum til að skapa hlýleika. Svo mun ég vera með úrval bóka. Rétt eins og þegar okkur er boðið inn í stofu hjá einhverjum, þá fær maður ákveðinn skilning á manneskjunni sem býr þarna með því að skoða hlutina sem eigandinn hefur komið fyrir í stofunni. En í mínu tilfelli þá gefa bækurnar hugmynd um efnið sem mig langar til að tala um. Svo langar mig að bjóða upp á te, það er ekkert betra en að halda á heitum tebolla þegar þú ræðir mikilvæg málefni.
Hvernig viltu að notendur upplifi rýmið?
Mig langar að miðla tilfinningunni sem þú færð sem barn þegar þú býrð til hús úr teppum, þitt fyrsta eigin heimili. Ég er ekki viss um að öryggi sé rétta orðið til að lýsa þessum stað. Þetta er hlýlegur staður og þú getur skapað hann alveg eftir eigin höfði. En rýmið er líka hluti af því sem er utan þess, í gegnum þunna renningana sér þú hvað er að gerast fyrir utan. Þú ert ekki útilokaður frá umhverfinu og rýmið er opið þeim sem vilja koma inn.
Við hvern langar þig að ræða við á Stofunni?
Ég er ekki alveg viss. Annað hvortvið einhvern sem rannsakar sögu fólksflutnings eða einhvern sem er sjálfur hluti af samfélagi innflytjenda á Íslandi. Það mun líklegast ekki koma í ljós fyrr en stuttu fyrir opnun Stofunnar. En mig langar líka að hafa fólk í kringum mig sem langar að taka þátt í samtalinu. Það byrjaði í raun með úskriftarverkefni mínu í hönnun frá LHÍ, sem fjallar um að skapa sögu innflytjenda og menninguna í kringum það. Innan þessarar rannsóknar var samfélag á Facebook „Away from home – living in Iceland“, sem vakti áhuga minn og hvaða samræður færu fram á þessum vettvangi. Mig langar að draga þræði úr þessum samræðum inn í hlýlega Stofuna, sem er aðeins falin. Útskriftarverkefnið mitt var mjög abstrakt. Nú langar mig að nýta tækifærið og tengja þessar hugmyndir um sögu innflytjenda og menningu á bókasafnið og inn í samfélagið.
Leitarðu í ákveðinn innblástur frá öðrum stöðum í hönnun þinnar Stofu?
Ég sæki innblástur í innsetningu samnemanda míns Felix Buchholz, þar sem hann vinnur með textílefni til að endurreisa hús ömmu sinnar, mjög viðkvæm og jafnframt hlýleg birting af heimili.
Listaverk Felix Buchholz má finna hér.
Frekari upplýsingar um verkefnið Stofan | A Public Living Room eru hér.