Ljóðaslamm | „Stundum er það einlægnin, stundum ástríðan.“
„Slammljóð eru öðruvísi en önnur ljóð að því leyti að þau eru oft lengri og orðmeiri þar sem keppandi hefur 3 mínútur til að koma ljóði sínu til skila. Einnig eiga þau til að vera í meiri talstíl frekar en í stífum bragarhætti sökum eðlis flutningsins,“
segir Jón Magnús Arnarsson, leikari og fyrrverandi Íslandsmeistari í ljóðaslammi. Jón Magnús undirbýr nú ásamt Guðrúnu Elísu Ragnarsdóttur, sérfræðingi á Borgarbókasafninu, elleftu ljóðaslammkeppni bókasafnsins sem fram fer í Grófarhúsinu á Vetrarhátíð 2. febrúar næstkomandi.
Eins og lítið leikrit eða stuttmynd
„Þar sem að ljóðaslamm er keppni í ljóðum þarf að huga bæði að innihaldi en ekki síður flutningi. Til dæmis hefur keppandi sem les upp af blaði ekki sömu áhrif og sá keppandi sem kann sitt ljóð utan að. Sjálfsöryggi fleytir manni langt og að eigna sér sviðið, sem þýðir þó ekki að það þurfi að vera á þeytingi. Í raun er það gríðarlega persónubundið hvað það er sem hnikar einkunnagjöfinni upp á við. Ég hef séð ljóð flutt lágri röddu og í mónótón af manneskju sem stóð grafkyrr en hafði bara einhvern „x faktor“ sem fleytti henni til sigurs. Stundum er það einlægnin, stundum ástríðan.“
Guðrún Elísa tekur undir þetta,
„Já, ljóðin eru öðruvísi, það er öðruvísi taktur í þeim, því performansinn skiptir jafn miklu máli og orðin, þú þarft að ná salnum með atriðinu þínu, heilsteyptri hugmynd sem þú þarft að kynna, eins og lítið leikrit eða stuttmynd, áhorfendur sogast inn í atriðið.“
Ljóðaslamm er keppni í tjáningu þar sem orðið og ljóðið eru aðalatriðin. Flutningurinn spilar einnig stórt hlutverk og getur tengst ýmsum sviðslistum. Hefðbundinn ljóðaupplestur telst ekki til ljóðaslamms, heldur er áherslan á ljóðaflutning sem sviðslist og geta flytjendur skeytt t.d. myndlist eða leiklist saman við ljóðaflutninginn. Dómnefnd dæmir svo hvert atriði út frá ljóðinu sjálfu, auk ástríðu og eldmóðs í flutningi, stíl og innihaldi og stundum líka út frá viðbrögðum áhorfenda. Ljóðin verða að vera frumsamin og mega ekki hafa verið gefin út á prenti en ekki er gerð krafa um frumflutning sé að ræða.
Ekki má nota tónlist eða hljóðfæri en notast má við leikmuni sem að sögn Jóns Magnúsar er ekki samkvæmt ströngustu reglum alþjóðlegs slamms.
„En við gerum undantekningu á meðan íslenska ljóðaslammsenan er að kvikna.“ Hann segir slammsenuna á Íslandi ekki vera ýkja stóra. „Nei, það er varla hægt að segja það á þessum tímapunkti enda meira og minna óþekkt listform hér á landi. En komandi keppnir ásamt fleiri viðburðum er einmitt ætlað að bæta úr því! “
„Við erum að vonast til að ala upp upprennandi kynslóð af ljóðaslömmurum, þetta er svo skemmtilegt konsept því valmöguleikarnir eru endalausir, þetta er bara míkrófónn, orðin og áhorfendur. Í fyrra var einhver sem kom með spil sem hann tengdi við atriðið, sem var mjög skemmtilegt. Það þarf þó að passa að leikmunirnir taki ekki athyglina frá atriðinu, ljóðið er aðal. Það verður þriggja manna dómnefnd með víðtæka reynslu úr tónlistar-, leik- og rappbransanum. Allir keppendur fara einu sinni á svið og veitt verða verðlaun fyrir 1.-3. sæti,“
segir Guðrún Elísa.
Slammað víða um heim
Aðspurður segir Jón Magnús, sem sigraði ljóðaslamm Borgarbókasafnsins árið 2017, það hafa verið heilmikið gæfuspor. Í framhaldinu hafi hann ferðast víða um heim, allt frá Englandi til Indlands til að „slamma“ en að fyrirkomulagið erlendis sé þó almennt með aðeins öðrum hætti.
„Það er þannig að þetta er útsláttarkeppni þar sem dómarar gefa einkunnir fyrir hvert ljóð og sigurvegari hverrar lotu heldur áfram þar til sigur er í höfn. Þá þurfa keppendur að hafa fleiri atriði í handraðanum.“
Þótt ljóðaslammsenan sé ekki stór á Íslandi enn sem komið er þá er hún það svo sannarlega erlendis. Listformið á rætur sínar að rekja til Chicago á níunda áratugnum og var hugmyndin með fyrstu keppninni að færa ljóðið frá akademíunni til almennings. Bandaríska ljóðskáldinu Marc Smith fannst ljóðasenan orðin stíf og stirðbusaleg svo hann hóf tilraunir á „opnum hljóðnema“ ljóðakvöldum með því að snúa þeim upp í keppni og fá þátttakendur til þess að slamma af eldmóði og með stíl til þess að hrista upp í hlutunum.
Stærsta ljóðaslammkeppni sem Jón Magnús hefur farið á var í Þýskalandi þar sem áhorfendur voru ríflega tvö þúsund og risastórt svið en hann segir keppnirnar þó yfirleitt vera á heldur minni skala.
„Sviðin eru svo sem misstór en oft er um að ræða nokkuð kósí umhverfi þar sem tækifæri gefst til að ná góðu sambandi við áhorfendur og skapa nánd og spennu í flutningi. Það er því til mikils að vinna fyrir keppendur, bæði innanlands en ekki síður utan landsteinana ef fólk hefur áhuga á því!“
Sunna Benjamínsdóttir Bohn fór með sigur úr býtum í Ljóðaslammkeppni Borgarbókasafnsins árið 2023 með ljóðinu Hvernig á að gera ljóðaslamm - Leiðbeiningar. Í kjölfarið var henni boðið að taka þátt í Slammovision í Nottingham í Englandi sem einnig er bókmenntaborg í Evrópu líkt og Reykjavík. Sú keppni fer fram á netinu, þ.e. keppendur senda inn upptöku af atriðinu sínu og hvert þátttökuland er með dómnefndarfulltrúa sem kjósa bestu atriðin. Guðrún Elísa var einn þriggja dómara frá Íslandi árið 2023.
„Þetta voru í kringum 13 atriði, mjög ólík. Sigurvegarinn hér heima þýddi sitt atriði yfir á ensku. Þetta er geggjað. Svo verður vinningshafinn að mæta til Nottingham.“
Hér má fá allar nánari upplýsingar um Ljóðaslammið á Safnanótt 2. febrúar.
Skráning er til og með 30. janúar.