Bókmenntavefurinn | Að sjá húmor og undur í hinu hversdagslega

Lesandinn hlær stundum að persónunum en þær sýna okkur einnig ákveðna eiginleika í okkur sjálfum svo lesandi engist um í sammennsku með persónunum og atvikunum sem Lóa teiknar upp. Það eru hversdagslegir atburðir og hugsanir eru í forgrunni í verkum Lóu en á sama tíma er gagnrýnin sem birtist í verkunum djúpstæð og spannar allt frá hinu persónulega til hins pólitíska.

Elín Björk Jóhannsdóttir, Bókmenntavefurinn

Fjöllistakonan Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, einnig þekkt undir listamannsnafninu Lóaboratoríum, er margt til lista lagt. Hún er orðin þekkt á sviði rit- og myndlistar með skáld- og myndasögum sínum jafnt fyrir börn sem fullorðna með snilldarhúmor og mannskilningi sem snertir við sammannlegt beygl og krump í samtímanum. Þá hefur hún einnig fengist við tónlist og haldið sýningar á verkum sínum. Nýjasta verk hennar nefnist Héragerði og er tilnefnt til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka. Á Bókmenntavefnum er hægt að lesa greinargóða umfjöllun um verk og feril Lóu, greinin er ríkuleg af teikningum Lóu en þar er sér í lagi verið að fjalla um nýjustu bækurnar Héragerði og Mamma kaka, báðar frá árinu 2022. 

Líkt og í Grísafirði og Héragerði er faðirinn fjarverandi enda er það einkum hlutverk kvenna og mæðra sem er til skoðunar í verkunum. Tvíþætta ávarpið í Mömmu köku er kröftugt því auk þess að fjalla um ævintýrin sem börnin finna sér fjallar bókin líka um hið ómögulega hlutverk mæðra sem eiga að uppfylla allar kröfur barna sinna, vera góðar og skemmtilegar mæður, fæða þau og klæða, elska þau, líka þegar þau eru óþolandi, og skemmta þeim, líka í vetrarfríum þegar móðirin hefur sjálf nóg að gera því samfélagið slær ekki af kröfunum þó að það sé vetrarfrí hjá börnum. Þessum kröfum fundu mæður vel fyrir í heimsfaraldrinum eins og Lóa sýndi í Dæs. Móðirin er hin vinnandi móðir eins og flestar nútímamæður á Íslandi eru. Af teikniborðinu, blýantinum í hárinu og bókarkostinum á vinnustofunni að dæma er hún arkítekt og hún er upptekin bókina í gegn, meðal annars á fjarfundum. Mamma kaka vekur upp hugrenningartengsl við fyrstu skáldsögu Margaret Atwood, The Edible Woman frá árinu 1969 og persóna mömmu köku er vísun í grafíkverk Ragnheiðar Jónsdóttur „Deluxe and Delightful“ frá árinu 1979. Það er ljóst af þessum vísunum að Lóa er að vinna með femíníska arfleifð og tengsl hennar við líf og tilveru kvenna enn í dag. Sjónarhorn barnsins er einfaldara: „Leiðindaskarfurinn hún mamma vill aldrei gera neitt skemmtilegt. Hún vill bara vinna og sussa og skamma.“

Elín Björk Jóhannsdóttir, Bókmenntavefurinn
 

Lesið stórskemmtilega rýni í verk Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur á Bókmenntavefnum.

 

UppfærtMiðvikudagur, 18. desember, 2024 10:13