Jonas Eika, handhafi Bókmenntaverðlauna Norðurlandsráðs 2019
Jonas Eika, handhafi Bókmenntaverðlauna Norðurlandsráðs 2019

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs | Bókalisti

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru afhent við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi í gærkvöldi. Handhafar verðlaunanna í ár eru danski rithöfundurinn Jonas Eika fyrir smásagnasafnið Efter Solen í flokki fagurbókmennta og hin norska Kristin Roskifte fyrir barnabókina Alle sammen teller í flokki barna- og unglingabóka. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1962 og hafa Íslendingar hlotið þau átta sinnum, nú síðast í fyrra þegar Auður Ava Ólafsdóttir var verðlaunuð fyrir skáldsöguna Ör. Verðlaunin eru árlega veitt bókmenntaverkum skrifuðum á tungumálum Norðurlandaþjóðanna og er markmið þeirra að auka áhuga á bókmenntum og tungumálum Norðurlandanna og að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf á sviði lista.

Verðlaun Norðurlandaráðs eru jafnan afhent í fimm flokkum; í flokki fagurbókmennta, barna- og unglingabókmennta, tónlist, kvikmyndum og í umhverfismálum. Danska kvikmyndin Dronningen fór heim með kvikmyndaverðlaunin en íslenska tónlistarkonan Gyða Valtýsdóttir hlaut verðlaunin í flokki tónlistar. Hin sænska Greta Thunberg fékk umhverfisverðlaunin en afþakkaði þau til að mótmæla aðgerðaleysi í loftslagsmálum og sagði að heimurinn þyrfti ekki fleiri umhverfisverðlaunum að halda.

 

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 10. júní, 2020 12:57
Materials