Lesandinn | Sævar Reykjalín
Sævar Reykjalín er þriggja barna faðir og Grafarvogsbúi. Hann er mikill Fjölnismaður og er þátttakandi í sumarlestrarátaki félagsins. Við rákumst á hann í Spönginni þar sem hann var að leita að bók sem var ekki til hjá okkur en við bentum honum á að senda inn innkaupatillögu.
„Gates of Eden er safn smásagna eftir Ethan Coen sem er þekktari fyrir að skrifa, leikstýra og framleiða myndir með bróður sínum Joel. Myndir eins og Fargo, O Brother where art thou, No country for old men, True grit og svo náttúrulega besta mynd allra tíma The Big Lebowski er bara brot af frábærum myndum úr þeirra safni. Flestar þeirra er hægt að leigja hjá Borgarbókasafninu.
Bókin kom upprunalega út árið 1998 og það sama ár eignaðist ég hana og las ca. einu sinni á ári allt þar til hún týndist í flutningum 2007. Það var því óvænt en frábær uppgötvun þegar ég uppgötvaði að hægt er að biðja bókasafnið um að kaupa bækur og er ég þegar búinn að því og bíð spenntur eftir að hún komi.
Bókin inniheldur 14 smásögur og hefur ein af þeim, „A Fever In The Blood (2002)“, verið kvikmynduð. Ég hef ekki séð hana en hún fær 7,8 á IMDB.
Uppáhaldssagan mín úr bókinni er um leynilögreglumanninn Hector Berlioz sem eins og hetjur mynda þeirra er seinheppinn í meira lagi.
Til er hljóðbók þar sem 11 af þessum 14 sögum eru lesnar af leikurum sem hafa slegið í gegn í myndum Coen bræðra og má þar nafna John Goodman, John Turtorro, Steve Buscemi og Willam H. Macy.
Hvet alla til að vera dugleg að lesa í sumar og njóta þeirra fjársjóða sem finna má á Borgarbókasafninu.“