Lesandinn | Björn Unnar Valsson
Lesandi vikunnar er Björn Unnar, vefstjóri á Borgarbókasafninu. Hann mælir með bókinni Cryptonomicon eftir Neal Stephenson.
„Um þetta leyti árs, þegar ég vil velja bók til að mæla með við hvern sem er, þá dreg ég pílu úr pússi mínu og fleygi henni í átt að bókaskápnum með lokuð augun. Hún hæfir þennan doðrant oftar en ekki, bæði vegna þess að hann er stærra skotmark en flest önnur og líka vegna þess að vald vanans er vald vanans.
Í meðförum Neal Stephensons á þessari senu, þar sem ég sit við skrifborðið mitt og munda píluna, mætti maður búast við innskotskafla um uppruna þessarar aðferðar, langtímaáhrif hennar á samband mitt við nánustu fjölskyldu, viðauka um áhrif líkamlegrar þjálfunar og næringar á hraða og svif pílunnar, jafnvel einu eða tveimur gröfum. Ég á við að Stephenson er langorður gæi. En þó bækurnar séu þungar þá flettir maður hratt, og mér finnst Cryptonomicon sú mest spennandi.
Stephenson kemur fram á sjónarsviðið sem vísindaskáldsagnahöfundur í „harðari“ kantinum (með Snow Crash og The Diamond Age) en Cryptonomicon er ekki beinlínis vísindaskáldskapur, heldur saga um peninga, dulmál, seinna stríð og þreifingar í tæknigeiranum á tíunda áratugnum. Út frá henni skrifaði hann síðar Barrokk-sveiginn (Quicksilver, The Confusion og The System of the World) sem fjallar um heimspeki og tækni á sautjándu öld; og Anathem, sem fjallar um platónskar frummyndir og geimverur á mörgþúsund ára tímalínu. Allar þessar bækur eru stórskemmtilegar (og hver annarri lengri) en tónninn er slegin í Cryptonomicon og best að byrja þar."