Joan Didion, 1934-2021

To free us from the expectations of others, to give us back to ourselves – there lies the great, singular power of self-respect. 

– Self-respect: Its Source, Its Power
Úr esseyju eftir Joan Didion sem var fyrst útgefin í Vogue árið 1961

Bandaríski rithöfundurinn og goðsögnin Joan Didion lést á heimili sínu í New York þann 23. desember í ár, 87 ára að aldri, en hún glímdi við Parkinson sjúkdóminn.
 

Didion skrifaði fjölda skáldsagna, og einnig greinar, minningar og sannsögur, þar á meðal bókina The Year of Magical Thinking sem fjallar um árið eftir að hún missir lífsförunaut sinn, rithöfundinn John Gregory Dunne. Bókin kom út árið 2005 og er næm og sterk lýsing á sorg og sorgarferli. Inn í sorgina fléttast einnig erfið veikindi dóttur þeirra, sem liggur í kóma. Didion reynir að skilja og fá botn í sorgina og segir hana allt annað en hún hefði haldið. Hún  leitar í skáldskap og segir sorgina jafnvel vera tímabundna geðveilu. Hún fer að trúa því að með magískum hugsunum geti hún fært eiginmann sinn aftur til sín, að hún hafi kraft til að endurheimta hann. Því passar hún vel upp á fötin hans og skó því hann gæti þurft á þeim að halda þegar hann kemur aftur frá dauðum. Joan og John voru mjög náin og nær aldrei aðskilin í fjörtíu ára hjónabandi. Hún leitar til bókmennta og minninga og finnur að í Los Angeles eru minningarnar alls staðar, á öllum stöðum og í öllum hennar athöfnum, þar eru minningarnar um líf þeirra saman og þær eru að lama hana. Bókin lýsir ferlinu af yfirvegun og um leið sársauka og hvernig hún þarf að sætta sig við það sem kannski ekki er hægt að sætta. Hún finnur sig smám saman aftur í nýjum heimi og heldur áfram að lifa með því að skrifa. Það gerði hún til dauðadags.

Joan Didion var áhrifamikill rithöfundur og blaðamaður sem nýtti eigin reynslu til að spegla, sýna og skilja heiminn, innra sem ytra. Borgarbókasafnið á nokkrar bækur eftir höfundinn, m.a. The Year of Magical Thinking og Play It As It Lays.

Flokkur
UppfærtMánudagur, 28. mars, 2022 10:34
Materials