Íslensku bókmenntaverðlaunin veitt ásamt Blóðdropanum 2023
Við óskum handhöfum Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans, íslensku glæpasagnaverðlaunanna 2023 hjartanlega til hamingju. Verðlaunin voru við hátíðlega athöfn á Bessastöðum og í beinni útsendingu á RÚV 31. janúar s.l.
Skáldverk:
Ból
Höfundur: Steinunn Sigurðardóttir
Útgefandi: Mál og menning
Í umsögn dómnefndar segir m.a.: „Ferðalag söguhetjunnar rammar inn frásögnina sem um leið verður innri ferð hennar og uppgjör við lífið. Það er margt sem kraumar undir, líkt og í náttúrunni sem býr sig undir að gjósa, en ferðinni er heitið heim í unaðsreit fjölskyldunnar, Ból, sem er um það bil að verða náttúruöflunum að bráð.“
Barnabók:
Bannað að drepa
Höfundar: Gunnar Helgason og Rán Flygenring
Útgefandi: Mál og menning
Í umsögn dómnefndar segir m.a.: „Bannað að drepa er bók sem er skrifuð af skilningi á hugarheimi barna og virðingu fyrir margbreytileika mannlífsins. Hún veitir ekki endilega einhlít svör við öllum spurningum en býður svo sannarlega upp á lifandi samræður barna og fullorðinna sem lesa hana saman.“
Fræðirit:
Samfélag eftir máli
Höfundur: Haraldur Sigurðsson
Útgefandi: Sögufélag
Í umsögn dómnefndar segir m.a.: „Samfélag eftir máli er afar áhugaverð bók um manngert umhverfi okkar, sem skiptir sköpum fyrir samfélagsþróunina, umhverfismál og persónulega líðan okkar allra. Hún á erindi jafnt til fagfólks og almennings, er fagurlega hönnuð og ljóst að hugað er að umhverfisþáttum við gerð hennar.“
Glæpasaga:
Heim fyrir myrkur
Höfundur: Eva Björg Ægisdóttir
Útgefandi: Veröld
Í umsögn dómnefndar segir m.a.: „Sögusviðið er lifandi og vel er unnið úr sögulegum atburðum í bakgrunni frásagnarinnar. Þessi samfélagslegi vinkill, sem snertir á sögu vistheimila á Íslandi, er fléttaður við fjölskyldudrama og hversdagslíf ungs fólks í borgfirsku dreifbýli upp úr miðri síðustu öld og úr verður sannfærandi og afar spennandi frásögn með fjölbreyttu og breysku persónugalleríi. “
Dómnefnd skipuðu þau Hjalti Freyr Magnússon, Kristján Sigurjónsson, Steingerður Steinarsdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir ásamt Kristínu Ingu Viðarsdóttur, forsetaskipuðum formanni nefndarinnar.
Á Miðstöð íslenskra bókmennta má lesa ítarlegri umsagnir um verðlaunabækur ársins 2023.