Halldóra K. Thoroddsen 1950-2020

Halldóra K. Thoroddsen rithöfundur lést 18. júlí siðastliðinn, sjötug að aldri. Halldóra sendi frá sér ljóðabækur, örsögur, skáldsögu og smásagnasafn og hlaut m.a. Fjöruverðlaunin árið 2016 og bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins árið 2017. 

Borgarbókasafnið heiðrar minningu Halldóru  og birtir hér brot úr bókinni 90 sýni úr minni mínu.

Þegar ég lagði tilvist mína á minnið

Þegar ég var sex ára sat ég á klósettinu og var búin að pissa. Ég horfði á hvíta baðmullarmottu á gólfinu fyrir framan mig. Á baðmottunni var munstur, í laginu eins og tölustafurinn átta. Þar sem ég sat og horfði á þetta munstur hugsaði ég: Ég er til núna ... og horfi á þessa áttu. Það ætla ég að muna alla ævi. Seinna var ég á leið í skólann. Ég heyrði bjölluna hringja og var orðin of sein. Samt varð ég að ljúka við að brjóta ísskænið af pollinum sem ég var að starfa í. Ég hoppaði og pennastokkurinn hristist í baktöskunni. Þá hugsaði ég: Ég er að hoppa og pennastokkurinn hristist í töskunni, sólin skín á skænið. Það ætla ég að muna alla ævi, eins og og áttuna á baðherbergismottunni. 
Þessi tvö atvik eru eins og yfirlýstar myndir í minni mínu. Þarna komst ég næst því að stöðva tímann og ná taki utan frá. 


 

Flokkur
Merki
UppfærtMiðvikudagur, 22. júlí, 2020 13:16
Materials