Bakið hans pabba hlýtur verðlaun
Norski rithöfundurinn Niels Fredrik Dahl hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2024 fyrir skáldsögu sína Fars rygg.
Brot úr rökstuðningi dómnefndar:
Sonur reynir að skilja föður sinn með hjálp bréfa, teikninga og ljósmynda sem hann skildi eftir sig. Fars rygg er skáldsaga sem sýnir hvernig einmanaleiki erfist milli kynslóða og hversu erfitt eða því sem næst ómögulegt er að átta sig á því sem hefur haft hvað djúpstæðust áhrif á ævi manns og sögu. Föðurafi aðalpersónunnar – dómarinn, harðstjórinn og þungamiðja fjölskyldunnar – gegnir mikilvægu hlutverki í sögunni. Frásögnin teygir sig yfir nokkra áratugi og heimsálfur og hefur órjúfanleg tengsl við sögu stríða og heimsvaldastefnu, en varpar um leið ljósi á það hvernig minni sem einkennist af gloppum og lausum endum er í raun það eina sem sem við höfum við að styðjast þegar við reynum að átta okkur á fortíðinni.
Handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs þetta árið hefur skrifað magnaða en jafnframt lágstemmda skáldsögu um það að fálma eftir hinu dulda og ókunna í eigin uppruna og þar með eftir áhrifum þess á mótun sjálfsmyndarinnar. Hér er á ferð bæði sársaukafull og skekjandi tilraun til þess að kanna og skilja þann vef sem verður til úr upplifun hverrar manneskju og hinum sameiginlegu, nánast yfirþyrmandi kringumstæðum heimsins sem við hrærumst öll í.
Einnig voru tilnefndar:
Álandseyjar: Ljóðabókin För att ta sig ur en rivström måste man röra sig i sidled eftir Mikaela Nyman.
Danmörk: Skáldsögurnar Jordisk eftir Theis Ørntoft og Hafni fortæller eftir Helle Helle.
Finnland: Skáldsagan 101 tapaa tappaa aviomies. Menetelmällinen murhamysteeri eftir Lauru Lindstedt og Sinikku Vuola og ljóðabókin Vill du kyssa en rebell? eftir Evu-Stinu Byggmästar.
Færeyjar: Ljóðabókin Lívfrøðiliga samansetingin í einum dropa av havvatni minnir um blóðið í mínum æðrum eftir Kim Simonsen.
Ísland: Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur.
Noregur: Skáldsögurnar Jeg plystrer i den mørke vinden eftir Mariu Navarro Skaranger og Fars rygg eftir Niels Fredrik Dahl.
Samíska málsvæðið: Persónulega frásögnin Leŋges hearggi Sáhčal fatnasa eftir Fredrik Prost.
Svíþjóð: Ljóðabækurnar Minnen från glömskans städer eftir Gunnar Harding og Nollamorfa eftir Johan Jönson.