100 ár frá fæðingardegi Hannesar Sigfússonar

Útsýn I

Snögglega rís ég á fætur og slekk ljósið
sem hefur starað á mig án afláts í tvær stundir
og spurt hvernig mér liði

Ég dreg tjöldin frá glugganum og horfi út
gegnum kniplingasparlök úr snjó á sofandi
landslag í breiðu rúmi vetrarins
með máða andlitsdrætti slaknandi
niður að fljótinu sem dregur andann
rólega í kyrrðinni

Aðeins dökk skógarbrúnin lyftist hægt
og gefur lokað auga til kynna:

Sofðu sofðu
Það er langt til vors

Hannes Sigfússon

Ljóðið kom upphaflega út í bók hans Örvamælir árið 1978 og síðar í Ljóðasafni árið 1982, sem hefur að geyma allar frumortar ljóðabækur hans auk fleiri ljóða. Árið 2016 var útgefið veglegt ljóðaúrval eftir skáldið sem Jón Kalman tók saman og ritar hann einnig formála í bókinni. Hannes Sigfússon er einn hinn fremsti í hópi svokallaðra atómskálda sem ruddu braut í nýjum stíl í íslenskri ljóðlist um miðbik 20. aldar. Hann fæddist þann 2. mars árið 1922 og lést 13. ágúst 1997. Eftir hann liggja 8 ljóðabækur og 2 skáldsögur, en jafnframt var Hannes mikilvirkur þýðandi.

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 2. mars, 2022 15:58