Unnur Lilja Aradóttir og Stefán Máni Sigþórsson
Unnur Lilja og Stefán Máni

Um þennan viðburð

Tími
16:30 - 17:30
Verð
Frítt
Tungumál
Íslenska
Liðnir viðburðir

Glæpafár á Íslandi | Bókakaffi með Stefáni Mána og Unni Lilju

Mánudagur 21. október 2024

Upplestur og spjall um glæpasögur

Rithöfundarnir Stefán Máni Sigþórsson og Unnur Lilja Aradóttir eru unnendum glæpasagna að góðu kunn. Þau mæta til okkar á bókakaffi, lesa upp og spjalla um bækur sínar.

Bækur Stefáns Mána njóta mikilla vinsælda og hefur ein aðalsögupersónan, lögreglumaðurinn Hörður Grímsson fallið lesendum sérlega vel í geð. Hörður spratt fram á sjónarsviðið í bókinni Hyldýpi 2009. Fyrsta bók Stefáns kom út árið 1996 og var það skáldsagan Dyrnar á Svörtufjöllum og eru bækur hans nú hátt á þriðja tug talsins, nú síðast kom út Borg hinna dauðu (2023).

Stefán Máni fæddist í Reykjavík árið 1970 en ólst upp í Ólafsvík. Þaðan flutti hann rúmlega tvítugur til Reykjavíkur þar sem hann býr nú og starfar. Stefán hefur hlotið Blóðdropann, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags í þrígang. Fyrst fyrir Skipið (2007), þá Húsið (2012) og loks fyrir Grimmd (2013). Bækur hans hafa einnig fengið tilnefningar til Blóðdropans, Glerlykilsins og Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Bókin Svartur á leik (2012) var kvikmynduð í leikstjórn Óskars Thors Axelssonar. Bækur Stefáns Mána hafa verið þýddar á erlend tungumál.

Unnur Lilja spratt fram á glæpasögusviðið með bók sinni Högginu sem kom út árið 2021. Fyrir hana hlaut hún glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn sem ætluð eru höfundum sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum. Árið 2023 kom svo út önnur spennusaga eftir Unni, bókin Utangarðs.

Glæpasögur Unnar Lilju fjalla um venjulegt fólk sem lendir í erfiðum aðstæðum og ýmis samfélagsmál, s.s. fátækt og klíkuskap sem geta grasserað í litlum samfélögum úti á landi. Unnur Lilja er fædd árið 1981 og býr á Álftanesi. Ásamt því að skrifa starfar hún sem sjúkraliði.

 

Bókakaffið er hluti af dagskránni Glæpafár á Íslandi sem haldin er í samstarfi við Hið íslenska glæpafélag, sem fagnar 25 ára afmæli í ár.VweiVerkefnið Glæpafár á Íslandi er styrkt af Bókasafnasjóði.

Ókeypis aðgangur.

Verið velkomin.

Viðburðurinn á Facebook 

 

Nánari upplýsingar veitir:
Katrín Guðmundsdóttir, deildarstjóri
katrin.gudmundsdottir@reykjavik.is | 411 6250

Bækur og annað efni