Bækurnar sem breyttu lífi mínu | Áhugi á matreiðslubók leiddi næstum því til slagsmála
Margrét Erla Maack les ekki mikið en er heilluð af matreiðslubókum. Svo langt gekk áhuginn að þegar fjölskylda Margrétar Erlu fékk bókina Matarást í jólagjöf lá við áflogum á heimilinu.
Margrét Erla Maack, fjölmiðlakona, fjöllistakona og framkvæmdastjóri Reykjavík Kabarett, og dóttir hennar sækja Borgarbókasafnið mikið og eru duglegar að nýta sér barnaaðstöðuna á safninu í Grófinni. Margrét viðurkennir hins vegar blátt áfram að hún sé ekki mikill lestrarhestur.
„Sá áhugi hefur ekki enn kviknað,“ játar hún. „Ég ætla að eiga það inni þegar líkaminn gefur sig og ég get ekki spriklað lengur,“ segir hún sposk á svip, en eins og kunnugt er hefur Margrét Erla kennt dans um árabil og staðið fyrir „burlesque“ sýningum og alls konar viðburðum, auk þess sem hún hefur troðið upp um allan heim.
Ef Margrét Erla ætti aftur á móti að nefna einhverjar bækur sem hafa haft mikil áhrif á hana þá væru það helst matreiðslubækur.
Af hverju?
„Því vel skrifaðar matreiðslubækur eru listaverk,“ svarar hún og bætir við að nokkrar hafi meira að segja haft töluverð áhrif á hana.
Matarást eftir Nönnu Rögnvaldardóttur
„Nanna er rokkstjarna og ég verð alltaf smá stjörnustjörf þegar ég spjalla við hana í vinnunni. Matarást breytti lífi mínu. Mamma og pabbi fengu hana í jólagjöf þegar hún var nýkomin út og við slógumst um hana. Hún er listavel skrifuð, fróðleg og skáldleg á köflum og vekur upp hughrif og tilfinningar. Ég finn bragð og lykt þegar ég les hana. Þetta er bók sem hvetur lesendur til að búa til sinn eigin skáldskap í eldhúsinu.“
Feast eftir Nigella Lawson
„Aftur, matreiðslubók með frábærum prósa. Söguþráðurinn hér er bæði grænn og epikúrskur: Bæði er verið að elda hátíðarmat en skemmtilegustu uppskriftirnar snúast um það hvað hægt er að gera úr matarafgöngum daginn eftir. Ótrúlega sniðug og skemmtileg bók á náttborðið - og auðveldara að lesa uppi í rúmi en hina þungu Matarást.“
Babette's Gæstebud eftir Karen Blixen
„Eruð þið orðin svöng að lesa þessa yfirferð? Afsakið. Hér er svo dásamlegt dæmi um hvernig hægt er að eyðileggja bækur með því að kenna þær. Sem betur fer náði ég að lesa Babette's Gæstebud aftur eftir stúdentspróf og þurfti þá ekki að skrifa ritgerð upp úr henni. Yndisleg bók um þakklæti og ást og tengsl holdlegrar nautnar og matar. Öll sem mér þykir vænst um sýna ást og umhyggju með mat. Mér finnst kvikmyndin sem byggir á bókinni líka æðisleg. Hún er einhvern veginn alveg á sama tempói og bókin.“
Fyrst Margrét Erla nefnir kvikmynd byggða á bók um mat er ekki úr vegi að spyrja í lokin hvort einhverjar slíkar hafi hreyft við henni, myndir á borð við Kryddlegin hjörtu eða Chocolat?
„Nei, ég man nú ekki eftir kvikmyndum í svona matarstíl,“ svarar Margrét Erla eftir stutta umhugsun. „Nema Delicatessen auðvitað, en hún er mannætumynd,“ bætir hún við og skellir upp úr.