Gleðin í því smáa | Höfuðáttirnar
Ég er fimm ára síðan í vor og þekki áttirnar. Sólin kemur upp í austrinu og sest í vestrinu. Svo er suður og norður líka en ekki eins mikilvægar áttir. Mamma fór í austur í sólarátt, austur á firði þar sem sólin kemur upp. Ég veit hvar ég er, en ætli mamma þekki áttirnar þegar hún er komin austur til sólarinnar og rati til baka heim að sækja mig?
Ég fór ekki austur á firði með mömmu. Elstu og yngstu börnin fóru með henni. Ég og tvö systkini mín urðum eftir í sveitinni okkar. Pabbi dó og þá varð að koma okkur fyrir hjá ættingjum og vinum. Allt sumarið áður en mamma fór hélt ég mig nálægt henni, hélt laust í pilsið svo hún tæki ekki eftir því, nuddaði nefinu að pilsinu og dró djúpt að mér andann. Ég fann að eitthvað var í vændum. Eitthvað annað en dauðinn, eitthvað skelfilegra en dauðinn. Dauðinn var nú ekkert svo voðalegur þegar mamma lifir. Það var kaffi og sætabrauð þegar þau komu aftur úr kirkjunni og höfðu þá skilið kistuna eftir þar. Pilsið var þungt og svart og af því lykt sem sat í nefinu og minni mínu lengi eftir að hún fór.
Þegar ég varð stálpuð var ég alltaf mjög veik fyrir svörtu efni og lærði fljótt að sauma og vildi þá helst sauma úr svörtu. Best fannst mér þegar áferðin var sú sama og á pilsinu hennar mömmu. Eins og sólin, himinninn, grasið, jökullinn og blómin bera nú fallega liti, þá var svartur minn litur. Mamma var farin, sveitin varð eftir og varð mín móðir, ég varð mín eigin móðir. Ég var aldrei sótt. Það var grasið, vindurinn og rokið, regnið og sólin sem faðmaði mig, tuskaði mig til, baðaði mig og þerraði tárin sem hættu smátt og smátt að renna. Ég fór meira að snúa mér í vestur, horfa á sólina setjast og gylla jökulinn. Hugga mig með augunum. Þegar hún fór horfði ég niður sem er engin átt heldur.
Eftir að ég fullorðnaðist og gifti mig sneru bæjardyrnar í austur og það var dagleg áminning þess að ég var skilin eftir. Síðar fluttum við og var það mér nokkur huggun að bæjardyrnar sneru í vestur og bæjarhóllinn skyggði á austrið.
***
Undanfarna daga þarf ég oft að strjúka niður eftir pilsinu, það eru einhver þyngsli í pilsinu, eitthvað sem fer ekki, þungt en svo létt, eins og fingraför eftir litla fingur og lófa. Fingraför sem fylgja mér og mást aldrei af þessu pilsi. Börnin mín eru mörg og öllum ann ég hugástum. Hvert þeirra tek ég með mér, hvert ekki? Sveitungar mínir eru tilbúnir að taka eitthvað af börnunum að sér. Þú sækir litlu greyin þegar um hægist og þú ert búin að koma þér vel fyrir. Segja sumir. Þau taka til við að móta hugsunina og að skipuleggja þetta fyrir mig. Öll af vilja gerð. Verða þau að vera matvinnungar til að verða eftir? Já, fullorðnu börnin mín geta séð um sig sjálf og unnið fyrir sér. Yngstu börnin geta ekki nema fylgt mér, það er ljóst. Hafa þau sem eftir verða, það sem til þarf? Hafa þau þolgæði og þrautseigju sem þarf, þrjóskuna? Þau yngstu, eitt á handlegg, annað tveggja ára og það þriðja alvarlega fatlað. Þessi þrjú fylgja mér.
Í sveitinni er nóg af börnum á handlegg. Þá eru þrjú peð sem ég verð að fórna. Hvernig gat þetta gerst, ég var ekki undir þetta búin, ekkja, öll þessi börn og öll lifðu þau, líka fatlaða barnið okkar. Maðurinn minn, faðir allra þessara barna var 14 árum eldri en ég, dáinn, horfinn. Ég er 35 ára og ætlaði mér að skrifa ljóð og sögur þegar um hægðist. En þetta var örlagavegurinn, bugðóttur og brattur. Ég varð svo ástfangin af manninum mínum og elskaði hann svo heitt alveg fram á seinasta dag. Við áttum börnin og ljóðin sem við ortum hvort til annars. Elskuðum börnin og ljóðin. Ljóðin tók ég með mér.
Ég sótti börnin aldrei. Það var of erfitt. Elsku litlu peðin mín sem ég fórnaði. Þegar ég svo hitti þau aftur var ég ekki lengur móðir þeirra, þau ekki lengur börnin mín. Ég hafði látið þau frá mér. Barnalánið var uppgreitt, vextirnir himinháir.
Hafdís Ólafsdóttir
Næst: Samtalið