Höfundar Jóladagatalsins 2020 | Nornin í eldhúsinu
18 umsóknir bárust í samkeppni um Jóladagatal Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgarinnar 2020.
Sagan Nornin í eldhúsinu varð fyrir valinu, en hún er skrifuð af Tómasi Zoëga og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir teiknar myndirnar. Sagan er bæði spennandi og falleg og er við hæfi allra aldurshópa!
En hvernig væri að kynnast Tómasi og Sólrúnu aðeins betur?
Hver eru Tómas og Sólrún?
Sólrún: Ég er 23ja ára myndhöfundur, en hef fengist við myndlist og tónlist alla tíð. Nú bý ég í Kaupmannahöfn þar sem ég stunda fiðlunám við Konunglega danska tónlistarháskólann. Ég bý líka til stilluhreyfimyndir og kenni stundum námskeið í því.
Tómas: Ég er 27 ára námsmaður og hef undanfarin ár lagt stund á jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og svo loftslagsfræði við Háskólann í Kiel í Þýskalandi. Svo finnst mér líka mjög gaman að skrifa sögur og geri það eins oft og ég get.
Hvernig kynntust þið?
Sólrún: Það er skemmtilegt að segja frá því að við kynntumst árið 2014 þegar við unnum saman hjá Siglingafélaginu Ými, þar sem við kenndum kátum krökkum að sigla hinum ýmsu bátum á sumarnámskeiði.
Tómas: ... og síðan þá höfum við þekkst!
Er þetta fyrsta sagan sem þið vinnið saman?
Sólrún: Já, jóladagatalið er fyrsta sagan sem við vinnum saman, en okkur hefur lengi langað til að vinna að svona verkefni saman. Það liggur svo vel við því Tómas skrifar svo sniðugar sögur.
Tómas: Og Sóla er alltaf til í að teikna! Það hefur verið á dagskrá í mörg ár að gera eitthvað svona saman og nú kom loksins að því.
Hvað hugsið þið þegar þið heyrið orðið bókasafn? Hvernig notið þið bókasöfn?
Tómas: Ég hugsa um stað sem er opinn öllum og fullur af sögum um heiminn. Þangað er hægt að fara til að slappa af, lesa bækur, horfa út um glugga, skrifa sögur og óteljandi fleiri hluti. Uppáhaldsdeildirnar mínar eru barna- og ungmennadeildirnar því ég hef mjög gaman að þannig bókum. Svo les ég stundum langar fantasíur og þá fer ég yfir í fantasíudeildina. Hún er líka frábær. Stundum vel ég bara einhverja deild af handahófi og leita að bók með skemmtilegum titli eða fallegri kápu og prófa að lesa hana. Þannig getur maður fundið ótrúlegustu sögur.
Sólrún: Bókasafn er nokkurs konar tímavélarfjársjóðskista fyrir mér því þar er að finna ógrynni af verkum, sumum eldgömlum, sem manni hefði aldrei dottið í hug að væru til. Ég nota bókasöfn til að fá innblástur og til að ferðast aftur í tímann, því þannig get ég kynnst nýjum hlutum.
Hvað ætlið þið að verða þegar þið verðið stór?
Sólrún: (Ef ég verð einhverntímann stór, þá ætla ég að reyna að verða lítil aftur…) Mig langar til að vinna í sinfóníuhljómsveit þegar ég verð stór, ég ætla líka að halda áfram að vinna í alls konar skapandi listverkefnum.
Tómas: Úff, þetta er erfið spurning. Ég held samt að ég muni aldrei vinna í sinfóníuhljómsveit því ég kann ekki að spila á hljóðfæri. En frá því að ég las Hringadróttinssögu fyrst hefur mig langað að verða entur. Þeir eru risavaxnir trjámenn sem geta orðið mörgþúsund ára gamlir og finnst fátt skemmtilegra en að rölta um skógana þar sem þeir búa. Það hefur hins vegar ekki gengið hingað til og þess vegna langar mig að verða náttúrufræðingur, rithöfundur og kannski kennari.
Hvað finnst ykkur skemmtilegast að gera?
Tómas: Mér finnst gaman að heimsækja falleg gróðurhús, sérstaklega ef þar eru hitabeltisplöntur sem hægt er að borða, til dæmis kakó eða bananar. Þá líður manni eins og maður sé staddur inni í frumskógi sem er alveg magnað. Svo er ég líka mjög hrifinn af fuglum og fer oft niður í fjöru eða út í mýri til þess að fylgjast með þeim.
Sólrún: Fyrir utan það að spila á fiðlu og teikna, þá finnst mér ótrúlega skemmtilegt að baka brauð og elda ljúffengan mat með fjölskyldunni. Svo er líka mjög gaman að fara á seglbát með Tómasi!
Tómas: Já, það er alltaf gaman að sigla í góðum félagsskap.
Eru nornir alltaf vondar?
Sólrún: Ég held að nornir séu alls ekki alltaf vondar, kannski aldrei – en þú Tómas ert áreiðanlega með betra svar við þessu…
Tómas: Sammála Sólu! Ég held að flestar nornir séu með bæði gott og slæmt í sér, alveg eins og ógöldrótt fólk. En málið með nornir er að þær geta verið ákaflega skapstórar. Stundum eru þær himinlifandi og stundum bálreiðar. Þær verða líka oft eldgamlar og mjög hrukkóttar og geta verið ansi ógnvænlegar þegar þær gretta sig. Þeim finnst gaman að hrekkja fólk og þess vegna held ég að margir haldi að þær séu vondar.
Við þökkum þessu góða tvíeyki fyrir skemmtilegt viðtal!
Hér má skoða jóladagatöl fyrir ára.