
Laufeyjar-bókasafnskort fyrir aðdáendur söngkonunnar
Við þekkjum öll tónlistarkonuna Laufeyju Lín sem hefur heillað heiminn upp úr skónum með sínum hógværa sjarma og einstöku rödd.
Í tilefni af A Very Laufey Day þann 24. ágúst, hefur Borgarbókasafnið ásamt nokkrum erlendum almenningsbókasöfnum, gefið út sérstakt Layfeyjar-bókasafnskort í takmörkuðu upplagi. Kortin eru gefin út í samvinnu við tónlistarkonuna og fara í umferð á söfnum okkar frá og með 24. ágúst 2025.
- Laufeyjar-bókasafnskort virkar alveg eins og hefðbundið bókasafnskort.
- Árgjald fyrir bókasafnskort hjá Borgarbókasafninu er 3.200 kr. Það sama gildir um Laufeyjar-kortið.
- Viltu skipta gamla bókasafnskortinu í Laufeyjar-kort? Hér er gjaldskrá.
- Gildir á öllum söfnum Borgarbókasafnsins og á öðrum almenningsbókasöfnum borgarinnar.
- Átján ára og yngri borga ekki fyrir bókasafnskort.
Allar frekari upplýsingar um bókasafnskort hjá Borgarbókasafninu má nálgast hér.
Laufey Foundation, Book Club og Very Laufey Day
Laufey hefur nýtt frama sinn til að vekja athygli á mikilvægum málefnum. Hún stofnaði The Laufey Foundation, sem styður ungt tónlistarfólk á fyrstu skrefum ferilsins og gefur því aukin tækifæri til að blómstra.
Á Instagram heldur hún úti The Laufey Book Club, lifandi bókasamfélagi þar sem hún deilir uppáhaldsbókum sínum og hvetur til samtals um lestrartengd áhugamál.
Að auki stendur hún árlega fyrir A Very Laufey Day. Þá velur hún áhugaverða staði víða um heim sem tengjast tónlist, bókmenntum eða persónulegum minningum – og hvetur aðdáendur sína til að heimsækja þá. Oft má finna tengingu við lagatexta hennar, sem gerir ferðalagið enn dýpra og skemmtilegra.
Við vonum að sem flest næli sér í þessa fallegu útgáfu af bókasafnskorti og njóti þess að uppgötva fjölbreyttan heim bókasafnsins. Þökkum innilega fyrir frábært og lestrarhvetjandi samstarf!