Um verkefnið

Verkefnið er einskonar listræn hópmeðferð og vekur okkur til umhugsunar um hvaða minningar og
ævisögur eru ósagðar. Hverjum finnst að þeirra saga eigi heima í hillum ævisagna á bókasafninu?

Á bókasafninu vex bókverkasafn notenda um ósögð ævisögubrot í formi myndasagna. Verkefnið skapar
rými fyrir listafólk þar sem aðferðarfræði myndasögunnar er beitt til að virkja notendur. Unnið er með
persónulegar minningar og vangaveltur í teikni- og bókverkasmiðjum og afraksturinn verður hluti af
safninu. Smiðjurnar vekja athygli á stöðugu flæði safnkosts í gegnum um safnið og breytingum á notkun
bókasafna. Verkefnið ýtir einnig undir læsi með því að vinna með fjölbreytni í frásagnartækni.

Verkefnið sækir innblástur í heim myndasögunnar og vinnur gegn þeirri hugmynd að teikning og skrif
séu aðeins fyrir útvalda. Með því að búa til fleiri ástæður fyrir fólk til að koma á bókasafnið og eignast
hluta í safninu sjálfu, vinnum við gegn einmanaleika og fjarlægð milli fólks. Þau hafa ástæðu til að mæta
á staðinn og gerast hluti af bókasafninu með því að miðla sinni sögu. Umhverfið hefur áhrif á líðan
okkar. Það að geta haft áhrif á kringumstæður og fundið að hægt er að breyta sameiginlegum rýmum
ýtir undir vellíðan og öryggi. Bókasafnið verður vettvangur lýðræðis með smiðjum sem hvetja til
samsköpunar og þátttöku og vekja notendur til vitundar um möguleika breytinga á almenningsrými.

Eigin upplifun af heiminum og minningar eru það eina sem þarf til að taka þátt í þessu verkefni, svo og
viljinn til að deila þeim með öðrum og setja mark sitt á bókasafnið.

Lóa Hjálmtýsdóttir hefur þróað frásagnartækni þar sem hún brúar bil og sameinar eiginleika rit- og
myndlistar og myndasöguformsins. Í hverri smiðju vinnur hún með skapandi samstarfsaðila sem sýna
minningar okkar og gleymsku í nýju ljósi. Með kveikjum frá listafólki og rithöfundum þróa og skapa
þátttakendur áður ósagðar ævisögur.
Frjálsum félagasamtökum sem vinna með einstaklingum sem
upplifað hafa félagslega einangrun og jaðarsetningu er sérstaklega boðið að tengja sínar sögur
verkefninu. Í þeim vinnustofum sækir Lóa sérfræðiþekkingu til samstarfsaðila sem auðvelda miðlun
þvert á tungumál og félagslegt samhengi.

Til þess að bókasafnið sé staður allra, rými sem opið er öllum, þá verður að vera leið til að notendur
finnist þeir eiga hlut í safninu, finnist þeir eiga þar heima.
Verkefnið tengir borgarbúa í gegnum
minningar sem gætu byrjað á sömu setningu en endað með gjörólíkum hætti. Jafnframt tengja
smiðjurnar borgarbúa bókasafninu þar sem hvert bókverk verður hluti af safnkostinum í lok hverrar
smiðju og afrakstrinum deilt á vefsíðu Borgarbókasafnsins, sem auðveldar þá þekkingarmiðlun sem
skapast í ferlinu til annarra bókasafna.

Frekari upplýsingar
Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is