Jóladagatal fyrir fullorðna | Les í des

Við á Borgarbókasafninu söknum upplestranna sem fylgja aðventunni, alveg eins og þið. Þess vegna hó-hó-hóuðum við í nokkra höfunda og þýðendur sem eiga bækur í flóði ársins. Eitt af öðru koma þau til byggða og kynna nýútgefnar bækur sínar, hvert með sínu nefi.

Fylgist vel með hér og á Facebook í desember, alla daga fram að jólum!

 

22. desember - Látra-Björg

Helgi Jónsson og Látra-Björg gægjast út um gluggann í dag, ásamt Hermanni Stefánssyni rithöfundi. Hvað er hér á seyði? Við skulum athuga málið.

 

21. desember - Bakað með Eleanoru Rós

Þrír dagar til jóla og þeir sem ekki eru búnir með átjándu sortina.. ja, eða búnir með hana... geta kannski hent í einhverja góða með góðri leiðsögn. Í 21. glugga dagatalsins er bakaraneminn Eleanora Rós Georgesdóttir!

 

20. desember - Fía Sól og furðusaga um krakka með kött í maganum

Að jólakötturinn éti börn sem ekki fá nýja flík fyrir jólin er ekkert sérstaklega sanngjarnt – og þótt við lítum framhjá neysluhyggjunni sem hann hvetur til, þá er þetta líka bara frekar ógnvænleg tilhugsun. En í dag fáum við að heyra af nýjustu bókinni um Fíu Sól – Furðusögu um krakka með kött í maganum ... spurning hvort sá hafi snúið vörn í sókn á jóladag?

Fjórir dagar til jóla og tveir höfundar í rauðum stólum. Kristín Helga Gunnarsdóttir og Halldór Pétursson!

 

19. desember - Berhöfða líf

Í nítjánda glugga gægjast úr tveimur tímavíddum skáldin Emily Dickinson og Magnús Sigurðsson, sem einnig er þýðandi hennar. Þau sameinast í bókinni Berhöfða líf, sem Magnús kynnir fyrir okkur.

 

18. desember - Ljóð 2010-2015 og Hingað og ekki lengra!

Þórdís Gísladóttir, rithöfundur, er ekki við eina fjölina felld. Hún leynist í átjánda glugga dagatalsins okkar, með tvær bækur meðferðis, annars vegar ljóðasafnið Ljóð 2010-2015 og svo aðra sem hún skrifaði ásamt Hildi Knútsdóttur; Hingað og ekki lengra! Hún var dessutom nýlega tilnefnd til þýðingarverðlaunanna fyrir þýðingu sína á Álabókinni, eftir hinn sænska Patrik Svensson, sem líka kom út i år. Jättebra!

 

17. desember - Raunvitund

Nálgast jóla lífsglöð læti og þá er upplagt að staldra við og íhuga staðreyndir heimsins. Gunnar Dofri Ólafsson kynnir fyrir okkur bókina Raunvitund, þýðingu sína á bókinni Factfulness eftir sænska eðlisfræðinginn Hans Rosling, sem helgaði lífi sínu í uppfræðslu almennings. Stórmerkileg bók sem kemur sannarlega á óvart.

 

16. desember - Gullfossinn

Sigrún Eldjárn gægist út um sextánda glugga jóladagatalsins, en hún hefur meðferðis þrjár bækur. Nýlega kom nefnilega út síðasta bók í framtíðarþríleik hennar: Gullfossinn. Hinar fyrri nefnast Silfurlykillinn og Kopareggið. Við gefum Sigrúnu orðið.

 

15. desember - Váboðar

„Sjá ég boða yður mikinn fögnuð,“ sagði engill í jólaguðspjallinu. Hugsanlega var einhver sem varaði við miklum óskunda einhvern tímann þarna fyrir síðustu jól, 2020 hefur reynst nokkuð strembnara fyrir gjörvallt mannkyn en mörg þau á undan.. eða hvað? Jæja, Váboðar heitir allavega bókin hans Ófeigs Sigurðssonar sem hann kynnir fyrir okkur í dag. Níu dagar til jóla, gjörið þið svo vel!

 

14. desember - Blóðrauður sjór

Það er farið að styttast grunsamlega mikið í jólin. Hræðilega stutt jafnvel? Eftirvæntingin orðin ógnvænleg? Skuggaleg? Já það eru spennandi tímar í vændum... En í dag starir Lilja Sigurðardóttir út um gluggann og hún heldur á nýjustu spennusögunni sinni ...

 

13. desember - Vala víkingur og miðgarðsormurinn

Ellefu dagar til jóla! Í dag segir Kristján Már Gunnarsson okkur frá bókinni Vala víkingur og miðgarðsormurinn sem hann gerði ásamt vinkonu sinni, Sól Hilmarsdóttur.

 

12. desember - 1900 og eitthvað 

Tólfti desember, nítjánhundruð og eitthvað... látum okkur nú sjá. Í dag les Ragnheiður Lárusdóttir upp úr ljóðabók sinni 1900 og eitthvað, sem hún hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir, fyrr á þessu ári.

 

11. desember - Bróðir

Halldór Armand segir okkur frá bók sinni Bróðir í dag, en einnig frá véfrétt nokkurri sem varð á vegi hans í Kreuzberg, þegar hann vann að bókinni, og hjálpaði honum að taka ákvörðun um innihaldið. 

 

10. desember - Íslandsdætur

Tvær vikur til jóla og Grýlusynir væntanlegir á næstu dögum. En í glugga jóladagsins í dag situr Nína Björk Jónsdóttir og segir okkur frá bók sinni Íslandsdætur. Í bókinni dregur hún upp sögu landsins í gegnum frásagnir af ýmsum konum, af öllum stéttum.

 

9. desember - Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin

Sigurður Ægisson flýgur út um níunda glugga jóladagatalsins í ár, ásamt herskara fugla sem allir tengjast íslenskri þjóðtrú á einn eða annan hátt. Þessi bók hefur verið í mörg ár í smíðum og hver veit nema hún valdi einhverju fjaðrafoki.

 

8. desember - Grísafjörður

Sextán dagar til jóla, kæru bókaormar, og í dag heimsækir Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir okkur með bók sína Grísafjörður, sem á dögunum var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hún ætlar að lesa fyrir okkur upp úr bókinni, sem ætti engan að svíkja.

 

7. desember - Fjölskyldulíf á jörðinni

Dagur Hjartarsson er sendiboði dagsins, hann flytur okkur fagnaðarerindi Fjölskyldulífs á jörðinni. Þar leggur hann meðal annars fram nýja tillögu að fegursta orði íslenskrar tungu. Sautján dagar til jóla, en bara einn Dagur Hjartarson (höfum reyndar ekki öruggar heimildir fyrir því).  

 

6. desember - Svefnfiðrildin

Út um sjötta glugga jóladagatalsins Les í des gægist Erla Björnsdóttir með bók sína Svefnfiðrildin.

 

5. desember - Dauði skógar

5. desember er góður dagur. Við bíðum ekki boðanna og opnum næsta glugga á jóladagatalinu Les í des. Jónas Reynir Gunnarsson fékk á dögunum tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bók sína Dauði skógar, en hann ætlar einmitt að lesa upphafsorðin fyrir okkur í dag.

 

4. desember - Birta, ljós og skuggar

Enn líður tíminn! Það er kominn fjórði desember og við opnum glugga á jóladagatalinu Les í des. Í dag birtist okkur Unnur Lilja Aradóttir með bók sína Birta, ljós og skuggar. 

 

3. desember - Sólarhjólið og Berrössuð á tánum

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, rithöfundur og útgefandi, leyndist í þriðja glugga dagatalsins. Hann hefur meðferðis tvær bækur, Sólarhjólið sem hann skrifaði í samvinnu við Högna Sigþórsson og Berrössuð á tánum sem er 25 ára afmælisútgáfa. Hver man ekki eftir kettinum Krúsilíusi? Hugsanlega yngsta kynslóðin, þar sem kisi er orðinn svona gamall. Það er því ekki seinna vænna að koma honum aftur á flakk!

 

2. desember - Töfralandið

Næst til byggða er Bergrún Íris Sævarsdóttir og sonur hennar, Stúfur. Nei, bara grín, þetta er hann Hrannar!  
Þau kynna í sameiningu fyrir okkur bókina Töfralandið sem ætti að falla í kramið hjá öllum bókaormum. 

 

1. desember - Við skjótum títuprjónum

Fyrsti höfundurinn sem heimsækir okkur á aðventunni er Hallgrímur Helgason, með bók sína Við skjótum títuprjónum. Gjörið þið svo vel!