Gleðin í því smáa | Vá

Það mætti halda að ég byggi í óbyggðum. Þar sem ég feta mig áfram í myrkrinu, í ótrúlegu myrkri og svakalega hrjóstrugum jarðvegi í miðri höfuðborginni, með tíkina mína sem ég sæi ekki nema vegna þess að hún er hvít, lít ég upp og sé Friðarsúluna. Vá, falleg er hún og skýin á himninum fyrir ofan hana sem taka svo örlát á móti ljósinu, hreinlega breiða úr því eins og dúnsæng. Hversu margir ætli njóti hennar í raun og veru eða íhugi tilgang hennar, hugsa ég, og hugur minn flakkar til þeirra mörgu vina erlendis sem dreymir um að öðlast upplifunina að bera hana augum, á meðan ég reyni að detta ekki um grjótið í kolniðamyrkrinu.

En hvernig ætli sé með Íslendinga?

Sennilega er henni mestmegnis tekið sem sjálfsögðum hlut hér, hugsa ég og lít aftur upp hvar ég sé Friðarsúluna núna stingast beint ofan í toppinn á upplýstri eldrauðri Perlunni ... Það er eitthvað rosalegt við þessa sýn ... eins og Friðarsúlan sé í samförum við Perluna. Ófyrirsjáanleg erótík þar sem hvíta og rauða ljósið mætast, renna saman í eitt, unaðurinn leynir sér ekki.

Þá flýgur hugur minn beint til Kamakhya Temple í Guwahati í Assam á Indlandi þar sem ég var beinlínis dregin inn í leg gyðjunnar Kali vorið 1999. Þar tók einhver í höndina á mér og leiddi mig í gegnum mannþröng niður mjög langan, hlykkjóttan og þröngan stiga endalaust ofan í jörðina. Allt var eldrautt, allir veggir eldrauðir, allar gyðjur eldrauðar, eina ljósið voru einstaka olíulampatírur. Þarna voru þúsundir kvenna saman komnar til að komast inn í heilagleikann. Andrúmsloftið var þrungið af hita, svita, raka og mannaþef í samblandi við reykelsi og mikla spennu. Það var ekki laust við að ég væri örlítið hrædd; hvert var verið að fara með mig og hvernig kemst ég aftur út ef ég kemst þá út aftur yfir höfuð? Þegar leggöngunum lauk og komið var niður í legið tók við helgiathöfn sem var ekki minna ógnvekjandi í eldrauðu myrkrinu. Algjör þögn, raki, þungt loft og yfirþyrmandi andrúmsloft. Undarlegt var þó að í þessu helga hofi frjósemi og kvenorku var karlmaður sem stjórnaði athöfninni.

Þetta er erótískasta lífsreynsla sem ég hef upplifað, verst að ég var ein á ferðalagi. Það er einhver magnaður kynngikraftur þarna sem greinilega virkar.

Vá, hvað hugurinn er sjálfstætt fyrirbæri.


Mireya Samper

Næst: Bara eitt skref