Gleðin í því smáa | Elstur

Ég opna augun. Það er kalt. Ég horfi inn í eldhús og sé mömmu sitja við eldhúsborðið fyrir framan eldavélina. Hún hitar vatn. Mér til fóta liggur bróðir minn og í mömmu bóli systir mín. Pabbi er ekki hér. Hann er farinn fyrir löngu. Mamma drekkur kaffið sitt og yljar lófana á heitri krúsinni. Hún heldur að ég sofi. Ég sé að hún grætur. Skyldi það vera mér að kenna? Nú klæðir mamma sig í kápuna sína. Hún þarf að fara að skúra á spítalanum þó það sé laugardagur. Hún horfir í áttina til mín og ég kinka kolli. Ég sé að hún er með bauga undir augunum.

Ég þarf að gæta systkina minna. Ég er orðinn stór strákur. Er elsti karlmaðurinn á heimilinu. Fimm ára síðan í nóvember. Bróðir minn og systir eiga bæði afmæli í janúar. Þá verður bróðir minn fjögurra ára og systir mín þriggja ára. Ég á að passa að þau fari ekki út og leiki sér á götunni. En stundum langar mig út.

Í síðustu viku var svo mikill snjór. Við fórum út að leika og þá bauð Steini okkur inn í bílskúr. En þá slasaðist systir mín. Bílskúrshurðin skall á höfuð hennar. Hún sér næstum ekkert með augunum sínum núna. Mamma segir að það sé mér að kenna. Ég átti að passa systur mína. Ég skelf undir sænginni. Ég er fljótur í fötin svo ég frjósi ekki. Mamma hefur lagt þau á koll fyrir framan eldavélina til að hita þau. Ég helli kaffi í krúsina mína og nóg af mjólk út í. Tek mola úr sykurkarinu og bleyti hann í kaffinu. Sýg kaffið úr honum á milli tannanna. Opna svo lúguna á eldavélinni og stari inn í logana. Eldurinn minnir mig á það sem gerðist síðasta sunnudag þegar mamma hvíldi sig inni í svefnherbergi. Þá hafði Munda systir fundið eldspýturnar og farið inn í eldhús og kveikt í öðrum gardínuvængnum. Ég öskraði á mömmu sem kom hlaupandi. Svefndrukkin reif hún hinn gardínuvænginn niður og vafði honum utan um eldhafið og henti öllu saman í vaskinn. Svo fór hún aftur inn að sofa. Mamma hvílir sig á sunnudögum. Hún vinnur svo mikið. Stundum í fiski en annars á spítalanum. Hún er alltaf þreytt þegar hún er heima.

Ég loka eldavélinni. Mér er orðið hlýtt.

Það búa margir í hverfinu okkar og ég á marga vini. Við erum kallaðir Kamparar af því að við búum í Kamp Knox. Húsin eru öll eins og eru kallaðir braggar. Þau líta út eins og hálfar tunnur sem liggja á hlið og eru klædd bárujárni. Það voru hermenn sem byggðu braggana í stríðinu. Mamma segir að ég sé fæddur í bragganum okkar. Ég fæddist 8 vikum fyrir tímann og var svo lítill að ég passaði í skókassa.

Mamma segir að það sé best að litlu krakkarnir sofi lengi á laugardögum. Þá hafi ég tíma út af fyrir mig. Ég stend upp af kollinum og tipla hratt á tánum inn í stofu. Á litlu borði í einu horni hennar stendur jólatréð sem Ingveldur frænka gaf okkur. Hvít ljósin á því eru svo falleg. Eins og litlar tindrandi stjörnur þegar maður pírir augun. Tréð er búið til úr spýtum sem settar eru saman. Mamma saumaði lítil, rauð hjörtu og hengdi á greinarnar. Við fengum líka pakka frá Ingveldi. Hún er svo góð við okkur. Pakkarnir eru undir trénu. Mig langar að kíkja inn í minn en man svo svipinn á mömmu þegar hún sagði að það megi bara opna á jólunum. Ég tek samt pakkann upp og hristi hann. Það hringlar í honum. Ég strýk hendinni yfir fallegan, glansandi pappírinn.

Ég horfi út um stofugluggann yfir að Skálholti, en það er fína húsið kallað sem stendur hinum megin götunnar. Það er eins og ævintýrahöll á skýi. Snjór á þaki þess og allt um kring. Ég hlakka til þegar mamma kemur heim úr vinnunni. Þá ætla ég út að leika við vini mína. Kannski teikum við bíl að Melabúðinni og stelum þar súkkulaði og tyggjópökkum. Ég ætla samt ekki að stela sígarettum aftur. Mamma fann pakkann sem við Siggi stálum um daginn. Hún lét mig reykja allar sígaretturnar svo ég gubbaði. Ég ætla aldrei að reykja aftur.

Gulli og Munda eru vöknuð. Ég segi þeim að klæða sig. Ég hjálpa Mundu því hún sér svo illa. Mamma segir að hún þurfi að fá gleraugu. Ég smyr brauðsneiðar fyrir okkur og helli mjólk í glös. Við sitjum við litla eldhúsborðið og ég virði fyrir mér litlu systkini mín. Eftir morgunverðinn leikum við okkur í stofunni. Ég tefli á skákborðinu sem Ingveldur frænka gaf mér, Gulli bróðir leikur sér að tindátunum sínum og Munda systir svæfir dúkkuna sína í trévagninum hennar. Ég ætla að gæta þeirra vel. Og reyna að vera góður strákur.


Katrín Björk Kristinsdóttir

Næst: Ragnheiður