Vasi eftir Maríu Karlsdóttur

Um þennan viðburð

Tími
Á opnunartíma
Verð
Frítt
Hópur
Fyrir öll
Liðnir viðburðir

Sýning | Töfrar glersins

Föstudagur 8. mars 2024 - Sunnudagur 26. maí 2024

Gler er efniviðurinn í sýningu Maríu Karlsdóttur í Borgarbókasafninu Árbæ.

Í glerinu birtast jöklar, fjöll og sjór, en einnig leika hraunið, svartir sandar og litbrigði himinhvolfsins stórt hlutverk. Eyðibýli og kindur koma þar sömuleiðis við sögu enda náttúran Maríu endalaus uppspretta hugmynda og sköpunar.

Verkin á sýningunni eru tvívíð en einnig eru þar vasar, skálar og fleiri þrívíð glerverk.

Handverk og sköpun hafa fylgt Maríu alla tíð og var hún þrjá vetur í Myndlistarskóla Kópavogs þar sem hún lærði olíumálun og almenna myndlist. Fyrstu kynni hennar af glerlist var í Danmörku þar sem hún var í námi og heillaðist hún þar gjörsamlega af efninu svo ekki varð aftur snúið. Síðan hefur hún farið á ótal glernámskeið, bæði innanlands og utan. Lærði hún m.a. hjá  hollenska listamanninum Frank van den Ham sem er virtur í glerlistaheiminum.

Samhliða sköpuninni vann hún megnið af starfsævinni hjá Landsbanka Íslands og sinnti barnauppeldi en börnin eru þrjú, barnabörnin átta og eitt barnabarnabarn.

María Karlsdóttir er fædd 1949 í Danmörku en ólst upp í Reykjavík. Hún gekk í Verslunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan sem stúdent. Hún er bókaormur og hefur notað bókasöfnin óspart alla tíð, fyrst í Hólmgarði, svo í Sólheimum, Þingholtsstræti, bókabílunum og svo seinni árin í Árbænum þar sem sýningin er.

María rekur ásamt fleiri listamönnum Art Gallerý 101, Laugavegi 44, 101 Reykjavík og eru verkin hennar þar til sölu. Hún er sömuleiðis á Facebook MK glerlist og á Instagram með karlsdottirm

 

Verið öll hjartanlega velkomin á opnun sýningarinnar föstudaginn 8. mars kl. 15. 

 

Nánari upplýsingar veitir: 
Katrín Guðmundsdóttir
katrin.gudmundsdottir@reykjavik.is | 411 6250