Gylfi og Guðný

Viðtal | Pinterest frábært til að fá hugmyndir

Laugardaginn 28. janúar opnaði á Borgarbókasafninu Spönginni, samsýning myndlistarhóps Korpúlfa. Korpúlfar er félag eldri borgara í Grafarvogi og eru meðlimir ríflega 1.000. Starf félagsins er afar fjölbreytt þar sem meðal annars er boðið upp á göngutúra, kórsöng, hannyrðir, pílukast og leikfimi bæði í Egilshöll og Grafarvogslaug.

Guðný Þorvaldsdóttir og Gylfi Theodórsson eru tvö þeirra 15 sem eiga verk á sýningunni. Guðný starfaði áður sem sjúkraliði og félagsliði en Gylfi sem rennismíðameistari og kennari. Þau eru bæði afar ánægð með starfið hjá Korpúlfum og segjast sjaldan hafa haft eins mikið fyrir stafni en auk þess að nýta sér ýmislegt sem í boði er, kennir Gylfi sjálfur útskurð hjá félaginu.

Pétur Halldórsson, listmálari er myndlistarhópnum innan handar en hver málar eftir sínu nefi og áhugasviði, ýmist með vatnslitum, akrýlmálningu eða olíu.

Pinterest og náttúran gefa góðar hugmyndir 

Að sögn Gylfa nota mörg í hópnum samfélagsmiðilinn Pinterest til að fá hugmyndir

„Pinterest er virkilega sniðugt, þar eru myndir og uppstillingar sem gaman er að mála eftir, allt eftir því hverju fólk hefur áhuga á. Einnig eru þar eins konar listkennslunámskeið þar sem maður lærir til dæmis hvernig gott er að mála hluti í mismunandi fjarlægð, fyrst það sem á að vera fjærst málaranum og síðast það sem á að vera næst.“

Náttúran er aftur á móti ofarlega í huga Guðnýjar við val á myndefni:

„Ég er fædd og uppalin á Fáskrúðsfirði þar sem ég hafði fallega náttúru og fjölskrúðugt fuglalíf fyrir augunum alla daga“ og bætir við „Mig hafði lengi langað til að læra að teikna en lét ekki verða að því fyrr en ég flutti til Reykjavíkur árið 2007, þá skráði ég mig í teikningu  í Tækniskólanum, sem reyndist góður undirbúningur fyrir málaralistina.“

Í störfum sínum sem rennismiður þurfti Gylfi oft að grípa til blaðs og blýants en byrjaði ekki að mála fyrr en í seinni tíð.

Guðný og Gylfi segja það hafa verið gaman að undirbúa sýninguna þótt því hafi einnig fylgt svolítil stress, að birta verkin sín almenningi. Guðný sem hefur áður haldið einkasýningar, bæði í Reykjavík og fyrir austan segir það seint venjast

„Það er alltaf svolítið stressandi að birta eigin verk en á sama tíma virkilega spennandi.“

Frá Siglufirði til Katalóníu

Þótt undirbúningi við sýninguna sé lokið sitja Korpúlfar ekki auðum höndum og fjölmargt spennandi á dagskrá framundan að sögn Gylfa:

„Við erum að fara í vorferð norður á Siglufjörð þar sem margt verður gert og skoðað. Ferðalagið sjálft í svona innanlandsferðum er oft líka mjög skemmtilegt, mikið sungið í rútunni við undirleik okkar frábæra harmonikuleikara. Einnig eru tvær utanlandsferðir í boði á þessu ári, annarsvegar til Englands og hinsvegar til Katalóníu. Hópurinn hefur farið í nokkrar utanlandsferðir saman sem hafa verið virkilega vel heppnaðar.“

Sýning myndlistarhóps Korpúlfa stendur til laugardagsins 25. febrúar, gestum og gangandi til ánægju og yndisauka á opnunartíma safnsins

 

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 10. maí, 2023 09:35