Kvennablóminn | „Þetta er lífið sem mig langar í“  

Sýning Þórunnar Elísabetar Sveinsdóttur, Kvennablóminn, stendur yfir í Borgarbókasafninu Spönginni til 10.janúar. 

„Þegar ég var lítil stelpa fannst mér stórris mjög skrítið orð en svo í gegnum tíðina hef ég oft unnið með „stóra risa“ í verkum mínum. Á þessari sýningu eru blúndur, sem konur biðu eftir að geta sinnt eftir að börnin voru sofnuð á kvöldin. Það sem mér finnst fallegt við að vinna svona er að maður tekur tímann og leysir hann til sín og leikur sér með tilfinningarnar út frá því. Þess vegna heitir sýningin Kvennablóminn,

segir Þórunn Elísabet Sveinsdóttir eða Tóta eins og hún er oftast kölluð, um sýningu sína sem nú stendur yfir í Borgarbókasafninu Spönginni.

Tóta stundaði myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Ísland og hefur haldið fjölda sýninga víða um land en einnig starfað við sýningarstjórnun og sem búninga -og sviðsmyndahönnuður í leikhúsum. Hlaut hún Grímuverðlaunin fyrir leiksýningarnar Sjö ævintýri um skömm, Rómeó og Júlíu Vesturports og Leg. Einnig hefur Tóta unnið í kvikmyndabransanum og eru myndirnar 101 Reykjavík, Ikingut og Hafið meðal verkefna sem birst hafa á hvíta tjaldinu.

„Fyrir mér er þetta hvernig tíminn geymist og þessi þörf fyrir að gera fallegt. Ég er mjög rómantísk sjálf og hef farið í gegnum margar hvítar „periodur“ (tímabil) og finnst gaman að nota textíl, gardínur, gamla þjóðbúninga, blúndur og annað sem til fellur. Til dæmis er einn laus hvítur kragi á sýningunni sem var settur á mismunandi kjóla til að gera þá fínni, svo var hægt að þvo hann eða flíkurnar. Allir hlutir voru dýrari og fólk átti ekki svo mikið.“  

Verkið Guðríður eftir Tótu

Hefur ekkert með skynsemi að gera

Aðspurð hvort sýningin tengist á einhvern hátt sterkri umræðu í samfélaginu um umhverfisvernd og fjölmennt kvenna -og kváraverkfall í október segir Tóta það ekki vera undirliggjandi hugsunina.

„En stundum er maður bara á réttum tíma, á réttum stað. Það er oftast nær þannig að ég veit það ekki sjálf. Ég byrja stundum bara einhversstaðar og veit ekki alveg af hverju en svo safnast þetta saman. Þú veist hvernig heilinn virkar, maður fær bara allt í einu , já, nú veit ég, þetta gæti verið gaman, og svo hleður þetta bara utaná sig. Ég á marga kassa sem ég hendi í dóti sem mér áskotnast en það góða við það er að ég tæmi þá reglulega. Stundum er ég þó búin að safna einhverju ákveðnu í upp undir 50 ár. Svo breytast áherslur og þá læt ég dótið fljúga annað. Sumar hugmyndir deyja líka, það getur stundum verið skrítið að geyma hugmynd of lengi. Ég held að þetta sé eins og með tískuna, enginn veit hvaðan hún kemur en hún verður til út um allt á svipuðum tíma. Ég hef alveg upplifað það en svo kannski stuttu seinna kemur, nei, og þá er augnablikið liðið. Ég veit ekki hvort maður eigi að gera sér of mikla grein fyrir því. Maður er til í augnablikinu og svo kannski lifir það áfram en svo kannski bara ekki. Það hefur með stundina, tíðarandann, tilfinninguna og upplifunina að gera, ekkert endilega skynsemina. En hún hjálpar til með þetta samband við heilann.“

Tóta segist ekki gera upp á milli listforma, hvert og eitt þeirra hafi sinn sjarma. Kvenarfurinn skipar stóran sess í verkum hennar líkt og í Kvennablómanum en einnig finnst henni gaman að vinna með pappír og tölur og ekki síður blásaum og spýtur, í anda afa sinna sem voru bólstrarar og smiðir.

Verk Þórunnar, Ásta

Heppin að fá hippana og pönkið beint í æð

En þótt Tóta vinni mikið með kvenarfinn er hún lítið fyrir að sauma dúka eða hekla teppi.

„Ég er allt of mikill hippi til þess, ég var meira í því að klippa efni í sundur og búa þannig til föt á börnin mín. Kannski eins og ég hafi tilheyrt meira konum af kynslóðinni á undan mér. Mér finnst ég svo heppin að vera lifandi á þessum tíma, fæðast inn í hippana og fá þetta beint í æð, og svo pönkið. Fara í myndlistarskólann á þessum tíma, nýlistardeildina. Þetta snýst kannski ekki endilega mest um það hvað ég lærði í skólanum sjálfum, heldur ekki síður af samferðafólki, það voru svo miklir snillingar, eldra fólk og yngra fólk, fyrir mig skiptir það máli. Held það sé stór partur í verkum mínum, ég er alltaf að höndla tímann og koma einhverri sögu áfram. Ég er lifandi safnhaugur.
Í leikhúsinu spretta svo hugmyndirnar eða nálgunin út frá texta. Ég byrja á að skilgreina hversu mikið má sjást og greina í sundur, dag og nótt, ríkidæmi og fátækt, sorg eða gleði. Því næst er það samningurinn, fyrst við þau sem eru listrænir stjórnendur, svo við leikarann. Þetta byggist allt á textanum og hlustuninni, hvernig við sýnum þetta.“

Kvennablómann segir Tóta vera hennar prívat drama, það sé ekki mörg stök verk heldur ein stór innsetning. Þannig bera öll verkin nöfn kvenna, tengdamóður listakonunnar og ömmusystur og nöfn eins og Hallgerður, Snæfríður, Bríet og Sigríður.

„Ég hugsa þetta sem altari tileinkað konum sem eru gengnar, allar nema tvær. Svo nær þetta langt, langt aftur. Að vissu leyti er þetta mín hylling og þakklæti til þessara kvenna. Við verðum að tjalda kærleikanum hvernig sem við getum. Það er ekki annað hægt, því ekki getum við farið inn í ofbeldið.“

Almenningsrými svo frábær

En hvernig skyldi Bókasafnið virka á listakonuna sem sýningarrými?

„Mjög vel, almenningsrými eru svo frábær því þangað koma allir, fólk er svo mismunandi að maður getur vakið áhuga hjá þeim sem eru með þá vísa í sér.“  

Þessa dagana er Tóta mest að vinna að verkum með blásaum (nöglum) og spýtum.

„Ég byrjaði þegar ég var smákrakki að líma saman allskonar og negla saman spýtur. Ef ég er ekki að vinna, þá verð ég leið. Þetta er lífið sem mig langar í.“

 

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 5. desember, 2023 12:39