Um þennan viðburð
Sýning | Sigga Björg Sigurðardóttir
Sýning Siggu Bjargar Sigurðardóttur, Stanslaus titringur, er sumarsýning Borgarbókasafnsins í Gerðubergi 2021.
Myndheimur Siggu Bjargar hefur gengið í gegnum ýmsar breytingar síðastliðið ár og þróast í nýjar áttir bæði hvað varðar efnisval og innihald. Sigga Björg teiknar hömlulaust og leyfir öllu að flæða í óritskoðuðu vinnuferli. Útkoman er oftar en ekki sería af teikningum, þar sem mannleg hegðun, frumstæðar kenndir og tilfinningar birtast í sínu hráasta formi. Listamaðurinn kannar þannig oft á tíðum óljós mörkin milli mennskunnar og hins dýrslega. Ritskoðunin á verkunum felst svo í að velja hvaða verk fara á sýningu. Á sýningunni í Gerðubergi hefur hún gengið skrefinu lengra og stækkað valin verk úr nýrri seríu af teikningum beint á veggi rýmisins.
Úr sýningartexta
Þú vaknar við létt bank. Þunn húðin við gagnaugað nemur hljóðið, en ekki eyrað.
Eyrað trúir hvort sem er bara því sem það heyrir.
Þú leitar að andlitinu í speglinum en finnur bara bláan blett sem hefur teygt sig yfir svæðið þar sem andlitið var áður.
Á gólfinu stendur fótur sem veifar þér að koma.
Í póstkassanum fyrir utan bíður sending sem á eftir að koma öllu úr jafnvægi.
Þú gengur í hringi, borðar einhvern, deyrð og breytist í eitthvað annað. Loksins sérðu myndirnar á veggjunum og skilaboðin frá gestinum.
“It's not what you look at that matters, it's what you see”
Henry David Thoreau
Sigga Björg Sigurðardóttir (f.1977) er listamaður búsett í Reykjavík. Sigga Björg lauk MFA gráðu frá Glasgow School of Art 2004, og hefur síðan sýnt verk sín víða um heim. Hægt er að kynna sér feril hennar á www.siggabjorg.net
Upplýsingar um sýninguna veitir:
Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri
Borgarbókasafninu Gerðubergi, s. 6980298