
Um þennan viðburð
Hvernig ertu? | Sýning
Svavar Pétur Eysteinsson tekur yfir sýningarrýmið í Gerðubergi og sýnir ljósmyndir, prentverk, vídeóverk og skúlptúr.
Sýningin opnar 28.maí og stendur uppi til og með 28.ágúst.
Á sýningunni má sjá fjölbreytt verk sem unnin eru sérstaklega fyrir þessa sýningu. Samhliða vinnunni við sýninguna hefur Svavar unnið að nýrri plötu og munu fjögur lög vera tilbúin til útgáfu í kringum opnun sýningarinnar. Svavar er flestum kunnur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló en hann er jafnframt grafískur hönnuður og ljósmyndari. Hann vinnur texta, tónlist og myndræna framsetningu jöfnum höndum. Í verkum sínum leitast Svavar við að finna hversdagslega hluti sem fólk tengir við og yrkja út frá því. Textarnir verða svo oft að myndverkum og öðlast þannig annað og meira líf í huga fólks.
Svavar Pétur er alinn upp í Breiðholti og því er það mikill fengur fyrir Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðuberg að fá tækifæri til þess að sýna verk Svavars sumarið 2022. Búast má við ýmsum viðburðum í tengslum við sýninguna sem kynntir verða síðar.
Nánari upplýsingar veitir:
Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri Borgarbókasafninu Gerðubergi, ilmur.dogg.gisladottir@reykjavik.is