"Ég er heit og mjúk" by Ella Magg
"Ég er heit og mjúk" by Ella Magg

Um þennan viðburð

Tími
10:00
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Sýningar

Artótek | Naglinn

Fimmtudagur 1. október 2020 - Laugardagur 31. október 2020

Listaverk eftir Ellu Magg verður til sýnis á Naglanum í Borgarbókasafninu Sólheimum frá og með 1. október. Verkið er fengið að láni frá Artóteki Borgarbókasafnsins, sem er til húsa í Grófinni.

Naglinn er nýr liður á Sólheimasafni en staðsetning hans blasir við gestum safnsins þegar gengið er inn um dyrnar. Áætlunin er að hafa þar ávallt eitt listaverk til sýnis, valið af starfsmanni, notanda eða kaupanda/leigjanda fyrra listaverks Naglans.

Hægt verður að leigja eða kaupa listaverkið. Ef listaverkið er leigt þar til þau eru að fullu greidd eignast leigjandinn verkið. Sá sem ákveður að kaupa/leigja listaverkið sem er á Naglanum má velja næsta verk úr Artótekinu sem verður til sýnis á Naglanum.

Elín Magnúsdóttir Rudari er fædd í Reykjavík árið 1956. Hún útskrifaðist með Diplom úr Gerit Rietveldt Akademíunni í Amsterdam árið 1987 og hefur síðan þá unnið sem listmálari. „Meginviðfangsefni mitt er hið ljúfa líf eftir miðnætti, fantasíulandslag og litbrigði þess sem gengur eins og rauður þráður í gegnum feril minn til þessa.“

Málverkið sem verður núna til sýnis á Naglanum heitir „Ég er heit og mjúk“ og er málað með vatnslitum. Naglinn er hugarafkvæmi Magnúsar Thorlacius, starfsmanns Borgarbókasafnsins í Sólheimum. Fyrsta sýningarverk Naglans var valið af honum og kærustu hans, Freydísi Halldórsdóttur. „Okkur finnst málverkið ótrúlega flott og öfundum hvern þann sem eignast verkið! Stemningin í því er einhvern veginn svo absúrd og ögrandi, svo skemmir ekki fyrir að þar leynast kisa og lítill fugl.“

Verkið er hægt að leigja á 3.000 kr. á mánuði eða kaupa á 65.000 kr.


Nánari upplýsingar um Artótekið, listamanninn og verkið á https://artotek.is

Nánari upplýsingar veitir: magnus.orn.thorlacius@reykjavik.is | 4116160

Sjá viðburð á Facebook | info in English on Facebook
Opnunartími á Borgarbókasafninu Sólheimum