Saumverk eftir Kristínu Dýrfjörð
Kristín Dýrfjörð og eitt verka hennar

Um þennan viðburð

Tími
15:00 - 16:30
Verð
Frítt
Liðnir viðburðir

Sýningarspjall | Í grænni lautu

Þriðjudagur 7. mars 2023

Á sýningunni eru saumverk sem Kristín Dýrfjörð hefur unnið að síðastliðin þrjú ár. Þau eru óður til náttúrunnar og hins íslenska móa. Viðfangsefnin eru aðallega fuglar og plöntur. Verkin eru saumuð með ýmiskonar garni; ull, bómull og silki.

Kristín verður á staðnum á þessum tíma og ræðir við gesti um verkin og kveikjur á bak við þau. Hún mun mæta með eigin saumaskap og er tilvalið fyrir gesti að grípa líka með sér handavinnu.

Sýningin stendur til 3. apríl.

Um verkin og vinnuna segir Kristín:

„Þegar ég sauma er ég stundum búin að ákveða hvað, en aldrei alveg hvernig. Ég skissa upp í huganum og stundum í skissubók, en síðan læt ég tilfinningu og liti ráða för nálarinnar. Saumaskapurinn er framhald af öðrum formum sköpunar sem ég hef ástundað og kannski má segja að ég hafi með honum fundið mína sköpunarhillu. Þegar ég sauma næri ég bæði huga og hönd og næ slökun og flæði. En í leiðinni finn ég hugmyndir brjótast fram, bæði þær sem snúa að daglegu starfi mínu við háskólann og næstu verkum.“    

Kristín Dýrfjörð fæddist í Hafnarfirði 1961 en flutti sama ár norður á Sauðárkrók þar sem hún hóf skólagöngu en flutti síðar til Reykjavíkur, nánar tiltekið í Blesugróf. Þar ólst hún upp inn í miðri borg með móa á aðra hönd og Elliðaárdalinn á hina, staðir sem hún sækir enn í að ganga um og sækja innblástur. Sem barn hafði Kristín unun af sköpun og fékk í nokkur ár að sækja tíma fyrir unglinga í Myndlista- og handíðaskólanum hjá Jóni Reykdal. Í gagnfræðaskóla og Fjölbraut í Breiðholti lagði hún áherslu á skapandi greinar. Kristín er menntaður leikskólakennari og er auk þess með meistarapróf í matsfræðum. Hún starfaði í allmörg ár í leikskólum þar sem hún lagði áherslu á listgreinar. Frá árinu 1997 hefur Kristín kennt við Háskólann á Akureyri þar sem hún er núna dósent. Hún kennir m.a. um sköpun barna og leik þeirra. Síðustu árin hefur hún einnig verið með vísindasmiðju þar sem leitast er við að tengja saman fjölbreytta sköpun við leik og náttúruvísindi.

  

Vefsíða Kristínar: https://www.laupur.is  

 

Viðburðurinn á facebook

 

Nánari upplýsingar:

Katrín Guðmundsdóttir 

katrin.gudmundsdottir@reykjavik.is