Segðu mér sögu | Innsetning
Innsetning til heiðurs barnabókahöfundum og verkum þeirra.
Njótum þess að endurupplifa lestrarstundir æskunnar
Innsetningin er risastórt rúm þar sem fólk getur lagst uppí, breytt yfir sig risasæng, hjúfrað sig í risakodda og valið sér barnabók til að hlusta á eða lesa. Þannig viljum við að fullorðnir geti að nýju upplifað sig sem barn í öruggi stóra rúmsins, látið lesa fyrir sig og leitað í hlýjar minningar æskunnar. Fundið fyrir öryggi, hlýju og yndi þess að láta lesa fyrir sig sögur og ljóð.
Dagur bókarinnar var haldinn hátíðlegur um allan heim þann 23. apríl. Á þessum fallega degi hófst Segðu mér sögu, viðburður í samstarfi menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Borgarbókasafnsins sem er ætlað að undirstrika þá miklu þýðingu sem barnabókahöfundar hafa fyrir samfélagið okkar. Við viljum beina ljósi að þeirri mikilvægu bókmenntagrein sem barnabókmenntir eru og þakka barnabókahöfundum fyrir ómetanlegt framlag sitt til menningar og samfélags. Barnabókmenntir eru oft fyrsta snerting barnsins við heim menningar og lista og skapar rætur fjölbreyttra blóma sem blómstra í börnunum okkar og eru mikilvægur hlekkur í skapandi og gefandi uppeldi.
Tilgangur Segðu mér sögu er að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi barnabókmennta og hvetja til þess að fólk gefi sér og börnum sínum mikilvægan tíma með því að lesa fyrir þau og hvetja þau til að lesa sjálf.
Höfundur: Svandís Dóra Einarsdóttir
Hönnuðir: Tanja Levý og Jökull Jónsson
Verkið er unnið í samstarfi við Byko, IKEA, Storytel og sotthreinsivatn.is