Fróðleikskaffi | Áhrif skipulags á líðan okkar
Áhrif skipulags á líðan okkar
Virðist tiltektin nánast óyfirstíganleg? Virpi Jokinen ræðir um hvernig gott skipulag getur nýst sem verkfæri. Skipulagsleysi á heimilinu eða vinnustaðnum getur endurspeglast í líðan; þegar maður hugsar um tiltekt en veit ekki hvar á að byrja og manni fallast hreinlega hendur. Öll getum við lent í því að vera einn daginn stödd þar í lífinu að verkefnin virðast óyfirstíganleg og maður veit ekki hvar á að byrja.
Við erum sífellt að takast á við breyttar aðstæður sem hafa oft í för með sér gamla og nýja hluti, oft ofgnótt af hlutum – og stundum er ekki auðvelt að eiga við þetta allt, að minnsta kosti ekki ein og óstudd.
Megináhersla erindisins er á hvernig skipulag nýtist sem verkfæri í átt að bættri líðan og á mikilvægi þess að skoða raunverulegar þarfir okkar og langanir hér og nú og aðgreina þær frá þörfum og löngunum liðinna tíma.
Virpi Jokinen rekur fyrirtækið Á réttri hillu og er fyrsti vottaði skipuleggjandinn (e. Professional Organizer) hér á landi, svo vitað sé. Hún er finnsk, tveggja barna móðir, hefur búið á Íslandi í rúman aldarfjórðung. Hún er menntuð í myndlist og leiðsögn, lauk skipuleggjandanámskeiði í Helsinki haustið 2018 og er með diplómu á meistarastigi í jákvæðri sálfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Virpi hefur 15 ára reynslu af verkefnastjórnun, þar af ellefu ár í starfi skipulagsstjóra Íslensku óperunnar, þar sem hún vann m.a. við framleiðslu á óperusýningum.
Nánari upplýsingar:
Jónína Óskarsdóttir
jonina.oskarsdottir@reykjavik.is
Sími 4116250