Um þennan viðburð

Tími
13:00 - 22:00
Verð
Frítt
Fræðsla
Tónlist

Menningarnótt | Óvænt upplifun á bókasafninu

Laugardagur 20. ágúst 2022


Öllu tjaldað til í Grófinni

Á Menningarnótt verður þétt og fjölbreytt dagskrá í boði fyrir alla fjölskylduna í Borgarbókasafninu Grófinni þar sem hver áhugaverður viðburðurinn rekur annan. Sú hefð hefur skapast að tjalda öllu til á safninu á þessari afmælishátíð borgarinnar og eins og sjá má af dagskránni verður hvergi slegið af í ár, hvorki í kröfum um gæði né framboði á spennandi uppákomum.

Menningarnótt

DAGSKRÁ

Terror In Resonance
Þættirnir, tónlistin, Manga vinnustofa og teikningar
Kl. 12:00 - 18:00 | 5. hæð

Íslenska myndasögusamfélagið býður ásamt japanska sendiráðinu upp á sýningu þáttanna Terror In Resonance. Teiknarar teikna fyrir gesti og gangandi og boðið verður upp á Manga vinnustofu. Þess má geta að íslenska tónskáldið Arnór Dan, semur tónlist fyrir þættina.

12:00 - 18:00 Listaverk verður til á staðnum
12:30 - 13:45 Teiknarar verða við inngang hússins
14:00 - 15:00 Manga vinnustofa

Leikur á ljós
Gagnvirkt tónaljósverk
Kl. 13:00 - 22:00 | 1. hæð

Gestum gefst kostur á að upplifa magnað samspil ljóss og tónlistar þegar tónlistarfólk mætir á svæðið og fyllir fyrstu hæð safnsins af töfrandi tónum. Hljóðfæri verða tengd lömpum sem gerir að verkum að með hverjum tóni tendrast fallegt ljósaspil og tónlistarflutningurinn öðlast alveg nýja vídd. Auk listamanna fá gestir og gangandi að spreyta sig og prufa tónaljósverkið með því að spila tónlist eða syngja. Sölvi Dýrfjörð, hönnuður verksins, verður á staðnum til að aðstoða og útskýra hvaða töfrar og tækni eru að verki.

Eftirfarandi tónlistarfólk og hljómsveitir munu spreyta sig á ljósaverkinu:

Kusk & Óviti 
Spagló
AnnaLísa
Baldur Dýrfjörð
Karma Brigade
Gúa
Snorri Beck
Róshildur
Júlí Heiðar
Vilberg Andri


Föndur og fjör
13:00 - 20:00 | 2. hæð

Litlum listamönnum gefst færi á að gefa sköpunarkraftinum lausan tauminn í notalegri föndurstund. Einungis þarf að mæta með hugmyndaflugið þar sem pappír, litir og helstu áhöld verða á staðnum.


Krakkajóga
Kl. 13:30 – 14:00 | 2. hæð

Alls konar skemmtilegar æfingar, öndun, leikir og slökun verða í boði í sérstöku jóga ætluðu allri fjölskyldunni, þar sem börnum og aðstandendum þeirra gefst kostur á að eiga ljúfa stund saman. Leiðbeinandi er María Ásmundsdóttir Shanko jógakennari sem hefur kennt leikjóga frá árinu 2018.  


Gong slökun
Kl. 14:10 – 15:10 | 5. hæð

Hvernig væri að upplifa endurnærandi slökun með heilandi tónum gong? Guðrún Ingibjörg Hálfdánardóttir kundalini jógakennari leiðir gong slökun fyrir alla sem vilja núllstilla sig og slaka á. 


Krakkajóga
Kl. 15:15 – 15:45 | 2. hæð

Gleði, leikur og slökun verða í fyrirrúmi í jóga ætlaðri allri fjölskyldunni. María Ásmundsdóttir Shanko jógakennari tekur vel á móti börnum og aðstandendum þeirra sem vilja eiga saman góða stund í kósí umhverfi.  


Ritlistarnemar
Kl. 16:00 -  17:00 1. hæð - Bókatorg

Er ekki tilvalið að gleyma sér um stund í annarra manna fjölskylduerjum, svikum og ástarfundum? Meistaranemar í ritlist lesa upp áhugaverð ljóð og sögur úr bókinni Takk fyrir komuna - hótelsögur.


„Silent“ Diskó / Hljóðlátt diskó
Kl. 18:00 – 20:00 | 1. hæð - Bókatorg

Það verður líf og fjör í þögninni á bókasafninu þegar boðið verður upp á hljóðlátt diskó, nýstárlega og skemmtilega leið til að upplifa tónlist saman. „Partýgestir“ fá þráðlaus heyrnartól og geta flakkað á milli rása og valið tónlist að sínu skapi og plötusnúðar keppast svo við að fá sem flesta í partýið á sinni rás.


Vinylkaffi
Kl. 20:00 – 22:00 | 5. hæð 

Tónlist, bækur og kvikmyndir eiga mikla samleið. Á Vínylkaffinu verða lög og plötur sem sækja innblástur eða efnivið í þekkt kvikmynda- og bókmenntaverk sett undir nálina. Spjallað verður um tilurð, tengingar og túlkanir. Óborganlegar sögur fá að flakka á meðan nýlagað kaffi fær að flæða. 

Viðburður á Facebook