Lófa- og handalestur.

Um þennan viðburð

Tími
Á opnunartíma
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Fræðsla

Hendur Íslands | Karakter þjóðar í gegnum hendur og lófa

Þriðjudagur 12. júlí 2022 - Laugardagur 30. júlí 2022

Hvað segja hendurnar þínar um þig? Á fimmtu hæð í Borgarbókasafninu Grófinni stendur nú yfir áhugaverð rannsókn undir yfirskriftinni Hendur Íslands sem miðar að því að skoða hvernig hendur og lófar Íslendinga hafa þróast í gegnum breytta lifnaðarhætti, allt aftur til 17.aldar, og hvernig má lesa í karakter þjóðar í gegnum hendur og lófa.

Þátttaka felur í sér ljósmyndun af höndum einstaklinga, 10 ára og eldri, sem eiga að minnsta kosti eitt íslenskt foreldri og persónulegan handa- og lófalestur á eftir, fyrir þau sem vilja. Fjarlægja þarf naglalakk og gervineglur fyrir myndatökuna.

Karlmenn eru sérstaklega hvattir til að taka þátt en reynslan hefur sýnt að þeir eru feimnari við að láta taka myndir af höndunum á sér og þiggja lófalestur. 

Skráning fer fram í gegnum facebooksíðu Hands of Iceland og tekur þáttaka um 20 - 30 mínútur.

Athugið að lófalesturinn er veittur í lok myndatöku og er hugsaður sem gjöf á móti þeim gögnum sem fólk gefur í rannsóknina. Það er því val hvers og eins hvort þau vilji þiggja lófalesturinn í lok skráningar eða ekki.

 

Nánar um verkefnið

Hendur Íslands er verkefni Jana Napoli, samfélagsfrumkvöðuls frá New Orleans, en Þjóðskjalasafn Íslands mun geyma gögnin þegar verkefninu lýkur, þ.e. safn ljósmynda af höndum Íslendinga, án persónuupplýsinga.
Hugmyndin að verkefninu kviknaði þegar Jana heimsótti Ísland árið 2016 og komst að því að Íslendingar eru hlutfallslega fleiri örvhentir en gengur og gerist. Síðan þá hefur hún komið árlega til landsins til að halda rannsóknum sínum áfram.

Þau gætu komið þér á óvart viskukornin sem koma í ljós við lófa- og handalesturinn, en Jana gefur sig þó alls ekki út fyrir að vera spákona. Hún les persónueinkenni úr lófum hvers og eins, með hliðsjón af því hvernig þeir eru uppbyggðir og hvaða línur og tákn þeir geyma. Jana hefur fengist við lófalestur sér til gagns og ánægju í yfir 60 ár.

Jana hefur fengist við ýmislegt um víða veröld. Verkefni hennar á lista- og samfélagssviðinu hafa vakið verðskuldaða athygli og hefur hún meðal annars hlotið „Use your life“ viðurkenningu frá spjallþáttadrottningunni Oprah Winfrey. Viðurkenningin var fyrir verkefni sem kallast YA/YA Inc. og gengur út á að gefa ungmennum í félagslega erfiðum aðstæðum valdeflandi verkfæri í gegnum listsköpun. Þá gerði Jana stóra og víðförla innsetningu undir heitinu Floodwall eftir að fellibylurinn Katarina olli gríðarlegum skemmdum og mannfalli í heimaborg hennar.

 

 

Merki