Um þennan viðburð

Tími
11:00 - 22:00
Verð
Frítt
Hópur
Fyrir öll
Tungumál
Öll tungumál
Börn
Tónlist
Ungmenni

Menningarnótt | Innilega á bókasafninu

Laugardagur 24. ágúst 2024

Öllu tjaldað til í Grófinni

Veðrið hefur leikið landann grátt í sumar og mörg vafalaust komin með nóg af útilegum í roki og vosbúð. Þá er tilvalið að skella sér í innilegu á bókasafninu á Menningarnótt þar sem er alltaf hlýtt, rignir aldei og lognið stendur í stað! Öllu verður til tjaldað á milli bókarekkanna, við tendrum myndarlegt „bál“ og þenjum raddböndin í hljómfögrum brekkusöng. Líf og fjör fyrir alla fjölskylduna á Borgarbókasafninu Grófinni í þessari árlegu menningarveislu borgarbúa, sem nú er haldin í 26. sinn. 
 

Á dagskrá allan daginn

Sjálfustöð | 1.hæð: Hvaða útilegutýpa ert þú? Íslenska sumarkonan, stangveiðimaðurinn eða ofurhetjan sem kemur til bjargar þegar tjaldið lekur, gasið klárast eða sundfötin gleymast? Brostu þínu breiðasta og smelltu mynd af þér í sjálfustöðinni. Búningar og fylgihlutir á staðnum til að gera góða mynd enn skemmtilegri.

Ratleikur | 2. hæð:  Það er mikilvægt að vera ratvís til að villast ekki á ferðalagi um landið. Það kemur sér líka vel í skemmtilega fjölskylduratleiknum í barnadeildinni þar sem faldar eru 10 vörður/bækur sem geyma svör við spurningunum leiksins. Dregið verður úr svörunum og hljóta heppnir ungir lestrarhestar spennandi bók í verðlaun. 

Gangi þér vel!
 

Klippiljóð og Lego

kl. 11:00 - 15:00 |  1.hæð - Torgið
Lego:  Fjall af lego fyrir fólk á öllum aldri til að byggja sína draumaútilegu með röndóttum tjöldum, bláu grasi og tröllum í fjarska. Gefðu hugmyndafluginu lausan tauminn og láttu þinn innri legohönnuð skína. 

Klippiljóð: 
Ljúft er í tjaldi að lúra
eð'í litlu hjólhýsi kúra
sum þó kjósa frekar ferðast heima
og láta sig dreyma um fjarlæga geima. 

Semdu þitt eigið útileguljóð úr orðunum sem þú finnur í orðasúpunni sem mallar á prímusnum, límdu þau á blað og taktu með þér heim. Ljóð geta verið allskonar, í bundnu eða óbundnu máli, jafnvel bara ein setning. Ljóðasmíðin getur líka verið skemmtilegt samstarfsverkefni fjölskyldunnar. 

 

Ævintýra sögu- og föndursmiðja

13:00 - 14:00 | 2. hæð

Prinsessur fara líka í útilegur og elska að drullumalla í læknum á tjaldsvæðinu, í prinsessukjólnum að sjálfsögðu, hlaupa um berfættar og fara í könnunarleiðangur upp á hól. Skemmtilegast þykir þeim þó að lesa sögur fyrir vini sína á meðan þeir liggja í grasinu og leita að kynjaverum í skýjabólstrunum. Komum okkur notalega fyrir og njótum þess að hlýða á snjóprinsessuna, snjódrottninguna og fjallamanninn lesa fyrir okkur ævintýri á ensku, frönsku og spænsku. Á eftir verður kórónuföndur, leikir og dans. 


Krakkajóga

Kl. 14:00 - 14:30 | 2. hæð

Í útilegum er mikilvægt að slaka vel á, anda ofaní maga og vera í núinu, skilja stressið, verkefnalistann og atið eftir heima. Þetta vita börnin best og því tilvalið að fylgja þeim í ljúfa samverustund í krakkajóga með Maríu Ásmundsdóttur Shanko sem kennt hefur leikjóga frá árinu 2018. Það er ekkert að óttast, það verða engar höfuðstöður, splitt eða spíkat, bara skemmtilegar æfingar, öndun, leikir og slökun. Ljúf jógastund fyrir alla fjölskylduna.  


Eins og í sögu...upplestur á örsögum

Kl. 15:00 - 16:00 | 1. hæð - Torgið

Ímyndaðu þér að þú sitjir í tjaldstól og lygnir aftur augunum. Þú leggur við hlustir og heyrir undurfagran fuglasöng í formi upplesturs. Fuglarnir sóttu allir námskeið í örsagnaskrifum á bókasafninu og hver syngur með sínu nefi en það sem þeir eiga sameiginlegt er þeir hafa allir annað móðurmál en íslensku. Njóttu þess að hlýða á fallegar örsögur um vor, vináttu, vatn, ferðalag, mat og veislur, partý og hátíðir. 


Krakkajóga 

Kl. 15:00 - 15:30 | 2. hæð 

Í útilegum er mikilvægt að slaka vel á, anda ofaní maga og vera í núinu, skilja stressið, verkefnalistann og atið eftir heima. Þetta vita börnin best og því tilvalið að fylgja þeim í ljúfa samverustund í krakkajóga með Maríu Ásmundsdóttur Shanko sem kennt hefur leikjóga frá árinu 2018. Það er ekkert að óttast, það verða engar höfuðstöður, splitt eða spíkat, bara skemmtilegar æfingar, öndun, leikir og slökun. Ljúf jógastund fyrir alla fjölskylduna.  

 

Sápukúlur

Kl. 15:30 - 16:30 | Úti

Sápukúlur ættu að vera staðalbúnaður í öllum útilegum. Stórar kúlur, litlar kúlur, sápukúlur í öllum regnbogans litum. Gerum tröllasápukúlur og látum þær svífa upp í háloftin...eða springa lauflétt á næsta gesti. 


Manga teikninámskeið

Kl. 15:00 - 16:00 | 5. hæð

Þriðji dagur í útilegu, bókin af bókasafninu hefur verið lesin spjaldanna á milli, tvisvar, það viðrar ekki til útivistar og síminn er batteríslaus. Þá er tilvalið að skella sér á teikninámskeið hjá Momiji Sensei í grundvallartækni og meginreglum mangateikningar, teiknimynda ættuðum frá Japan. Momiji leiðir þig í gegnum ferlið með ítarlegum leiðbeiningum og kennir þér hvernig á að teikna svipmiklar persónur.  
Engin þörf á reynslu í teikningu! 

Hvað á að taka með: blýanta, penna, strokleður og skissubók/glósubók.Skipuleggjendur munu einnig útvega blýanta og pappír en í takmörkuðu magni. 
Ókeypis aðgangur, en vegna takmarkaðs sætafjölda er skráning nauðsynleg hér.


Sendibréfasmiðja

Kl. 15:30 - 17:30 | 2. hæð 

„Elsku amma og afi
Það er búið að vera ótrúlega gaman í útilegunni, ég bjó til fallegan blómakrans, er búin að eignast nýjan vin sem er lítill brúnn hundur og mamma datt í lækinn sem var mjög fyndið. Hlakka til að sjá ykkur þegar ég kem heim. Kær kveðja, Sigga“

Deilum ævintýrum sumarsins með þeim sem okkur þykir vænt um og föndrum fallegt umslag til að setja sendibréfið í. Allt efni, frímerki og póstkassi á staðnum. 
 

Manga teikninámskeið

Kl. 17:00 - 18:00 | 5. hæð

Þriðji dagur í útilegu, bókin af bókasafninu hefur verið lesin spjaldanna á milli, tvisvar, það viðrar ekki til útivistar og síminn er batteríslaus. Þá er tilvalið að skella sér á teikninámskeið hjá Momiji Sensei í grundvallartækni og meginreglum mangateikningar, teiknimynda ættuðum frá Japan. Momiji leiðir þig í gegnum ferlið með ítarlegum leiðbeiningum og kennir þér hvernig á að teikna svipmiklar persónur.  
Engin þörf á reynslu í teikningu! 

Hvað á að taka með: blýanta, penna, strokleður og skissubók/glósubók.Skipuleggjendur munu einnig útvega blýanta og pappír en í takmörkuðu magni. 
Ókeypis aðgangur, en vegna takmarkaðs sætafjölda er skráning nauðsynleg hér.
 

Salsakennsla

Kl. 17:00 - 18:00 | 1. hæð - Bókatorgið

Eftir rigningarsumarið mikla er gott að komast í svolítið suðræna stemningu áður en haustið skellur á. Jóhannes Agnar Kristinsson, danskennari til margra ára, kemur blóðinu á hreyfingu og kennir ungum sem öldnum grunnsporin í salsa.


Brekkusöngur við „varðeld“

Kl. 18:00 - 18:30 | 1. hæð - Torgið

Ímyndum okkur eitt augnablik að gólfið í Grófarhúsinu sé mjúk og grasivaxin brekka, bókahillurnar séu klettar og það snarki í eldinum fyrir framan okkur, við finnum jafnvel reykjarlyktina ef við öndum djúpt inn um nefið. Þenjum saman raddböndin við gítarundirleik og kveðjum sumarið með allsherjar brekkusöng...Undir bláhimni, Kveikjum eld, Reyndu aftur og öll hin gömlu og góðu líka.


Karaókí

Kl. 18:30 - 20:00 | 1. hæð - Torgið

Söngglöð eru hvött til að spreyta sig á uppáhalds laginu sínu og önnur að láta leyndan draum rætast um að stíga á stokk. Öll karaókílög sem finna má á youtube eru í boði. Take it away! 

 

Silent diskó / Hljóðlátt diskótek

Kl. 20:00 - 22:00 | 1. hæð - Bókatorgið

Þegar búið er að hátta yngstu börnin inn í tjald verður líf og fjör í þögninni á bókasafninu þegar boðið er upp á hljóðlátt diskó, nýstárlega og skemmtilega leið til að upplifa tónlist saman. Partýgestir fá þráðlaus heyrnartól og geta flakkað á milli rása og valið tónlist að sínu skapi. 

 

Viðburður á Facebook.
 

Nánari upplýsingar veitir:
Guðrún Elísa Ragnarsdóttir, sérfræðingur
gudrun.elisa.ragnarsdottir@reykjavik.is | 411 6100