
Um þennan viðburð
Menningarnótt I Óvissuferð til framtíðar
Kæru farþegar, vinsamlegast spennið beltin, flaugin er nú tilbúin til brottfarar, í óvissuferð til framtíðar.
Á Borgarbókasafninu kennir ýmissa grasa um fortíðina en á Menningarnótt skyggnumst við inn í hið ókunna. Hvað skyldi framtíðin bera í skauti sér? Er hún okkur alveg hulin eða er hægt að komast á snoðir um hvað bíður okkar?
Á dagskrá allan daginn frá kl. 11:00 – 22:00
Plánetan Lego | 1. hæð: Fjall af Legokubbum fyrir fólk á öllum aldri til að byggja sína draumageimflaug, framtíðarhús eða (fljúgandi) bíla. Gefðu hugmyndafluginu lausan tauminn og láttu þinn innri Legohönnuð skína.
Sjálfustöð - „Víst fór ég í geimferð!“ | 1. hæð: Taktu sjálfu af þér í geimbúningi, jafnvel með vinum þínum geimverunum og sannaðu fyrir vantrúa ættingjum að þú hafir farið í óvissuferð til framtíðar. #óvissuferðBBS
Geimstöðin | 2. hæð : Hvern dreymir ekki um að verða geimfari, eða jafnvel geimvera? Upplifðu geiminn og ferðastu til fjarlægra stjarna í geimfarinu í barnadeildinni. Viðeigandi búnaður á staðnum fyrir unga geimfara.
Ratleikur | 2. hæð: Viltu forvitnast um ókomna hluti? Í hillum bókasafnsins er að finna ýmislegt úr fortíðinni, en ef vel er að gáð leynist þar einnig sitthvað um heima framtíðarinnar…tekst þér að finna svörin um geiminn og annað sem enn hefur ekki komið fram?
Barmmerkjagerð
13.30 - 14.30 | 2. hæð
Mikilvægt að allir góðir geimfarar séu vel merktir, til að koma í veg fyrir að þeim verði ruglað saman við geimverur, það gæti orðið vandræðalegt. Í barmmerkjasmiðjunni búum við til alls kyns merki sem hægt er að hengja á sig fyrir brottför til ókunnra pláneta.
Töfrar listskriftar
14.30 - 15.30 I 2. hæð
Fyrir tíma tölvunnar voru sögur og ævintýri handskrifuð á blað, stundum jafnvel með listskrift (kalligrafíu). Guy Stewart sýnir hvernig draga á til stafs með listskrift og leiðbeinir gestum hvernig nota má þessi sérstöku verkfæri. Hver veit nema þessi aldagamla kunnátta komi að góðum notum í framtíðinni.
Spáð fyrir fullorðna
Kl. 15.30 - 17.30 | 5.hæð
Hvað bíður mín á þriðja æviskeiðinu? Á ég að taka atvinnutilboðinu? Ætti ég að bjóða sætu stelpunni í næsta húsi út að borða? Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir, tarot-miðill, les í spilin fyrir gesti. Hver spádómur tekur 10 mínútur - fyrst koma, fyrst fá. Skráning á staðnum.
Manga teikninámskeið
15.00 - 16.00 | 5.hæð
Hvernig verður tískan í framtíðinni og hvernig mun umheimurinn líta út? Erfitt er um slíkt að spá en það má alltaf nota ímyndunaraflið…jafnvel teikna ágiskanir í japönskum Manga stíl. Hannah Sensei kennir grundvallatækni og meginreglur mangateikningar, teiknimynda ættuðum frá Japan. Hannah leiðir þig í gegnum ferlið með ítarlegum leiðbeiningum og kennir þér hvernig á að teikna svipmiklar persónur. Engin þörf á reynslu í teikningu!
Hvað á að taka með? Blýant, penna, strokleður og skissubók/glósubók. Blýantar og pappír á staðnum en í takmörkuðu magni. Ókeypis aðgangur en takmarkaður sætafjöldi og því gott að mæta tímanlega.
Salsakennsla
17:00 – 18:00 | 1. hæð
Skyldi salsa verða dansað í framtíðinni? En á öðrum plánetum? Maestro Jóhannes Agnar Kristinsson, salsakennari til margra ára, kemur blóðinu á hreyfingu og kennir ungum sem öldnum grunnsporin í salsa.
Manga teikninámskeið
Kl. 17.00 - 18.00 | 5.hæð
Hvernig verður tískan í framtíðinni og hvernig mun umheimurinn líta út? Erfitt er um slíkt að spá en það má alltaf nota ímyndunaraflið…jafnvel teikna ágiskanir í japönskum Manga stíl. Hannah Sensei kennir grundvallatækni og meginreglur mangateikningar, teiknimynda ættuðum frá Japan. Hannah leiðir þig í gegnum ferlið með ítarlegum leiðbeiningum og kennir þér hvernig á að teikna svipmiklar persónur. Engin þörf á reynslu í teikningu!
Hvað á að taka með? Blýant, penna, strokleður og skissubók/glósubók. Blýantar og pappír á staðnum en í takmörkuðu magni. Ókeypis aðgangur en takmarkaður sætafjöldi og því gott að mæta tímanlega.
Karíókí
18:00 - 20:00 | 1. hæð
“Space Oddity “, “Rocket Man “, “Fly Me to the Moon “ Karíókí fyrir þau sem vilja syngja um betri framtíð og kannski endum við í samsöng sem hljóma mun inn í eilífðina.
Hljóðlaust diskótek
20:00 - 22:00 | 1. hæð
Í lok óvissuferðarinnar lendir flaugin mjúklega á dansgólfinu þar sem farþegar fá þráðlaus heyrnartól, geta flakkað á milli rása og valið tónlist að sínu skapi. Dönsum eins enginn sé morgundagurinn, framtíðin er ennþá óskrifað blað.
Góðir farþegar, við þökkum ykkur fyrir samfylgdina inn í ferðalag til framtíðar. Við vonum að þið hafið notið ferðarinnar og séuð einhvers vísari um við hverju er að búast þegar fram líða stundir. Þótt enn sé margt á huldu þá er alveg víst að gleðin verður við völd á Borgarbókasafninu Grófinni á Menningarnótt 2025. Hlökkum til að sjá ykkur!